80 tonna línubáturinn Jökull SK 16 sökk fyrirvaralaust í Flensborgarhöfn fyrr í þessum mánuði. Hópur fólks var staddur á bryggjunni og varð vitni af því, m.a. börn sem skömmu áður höfðu stokkið í sjóinn skammt frá á þessum hlýja sumardegi.

Fjöldi mynda og myndbanda af atvikinu var birtur skömmu síðar á samfélagsmiðlum og dreift m.a. á síðunni Hafnarfjörður og Hafnfirðingar, enda sjaldgæft að svona nokkuð gerist.

Myndir sem Guðmundur Fylkisson tók daginn sem Jökull sökk.
Olíubrák úr skipinu sést vel á þessar mynd Guðmundar.

Jökull, sem smíðaður var 1959, hafði legið við Óseyrarbryggju undanfarin fjögur ár og gerður út frá Sauðárkróki. Hann var farinn að toga annan bát með sér niður, en það tókst að skera á taugina milli bátanna. Ekki er vitað hvers vegna skipið sökk, en því var lyft aftur upp af hafsbotni 20. ágúst.

Eva Ágústa Aradóttir, ljósmyndari Hafnfirðings, var á staðnum þegar Jökull var hífður á land og tók m.a. forsíðumyndina við þessa umfjöllun.