Allir Hafnfirðingar hljóta að kannast við Hellisgerði og margir þekkja fallega húsið þar við róluvöllinn. Þar var Litla Álfabúðin opnuð 2016 og hefur verið rekin yfir sumartímann af Tinnu Bessadóttur og fjölskyldu. Ekki stóð þó til að hafa hana opna í sumar, en dóttir Tinnu, Elena Dís Ásgeirsdóttir, sá fram á að vera atvinnulaus, nýútskrifuð úr Verzló. Hún ákvað að taka að sér reksturinn í sumar og gerði sér lítið fyrir og breytti Litlu Álfabúðinni í kaffihús. Við kíktum í heimsókn og smökkuðum dýrindis te. 

Elena Dís var að ljúka stúdentsprófi úr Verzló.
Nokkar af tetegundunum

Í Litlu Álfabúðinni býður Elena Dís upp á ilmandi kaffi, en einni 21 tegund af tei og enn fleiri undirtegundir. „Við blöndum mikið af teinu sjálfar, kaupum efnin í blöndurnar frá íslenskum heilsuhúsum og pöntum að utan það sem ekki er til á Íslandi. Ég dvaldi hjá pabba mínum á Spáni í fyrrasumar, en hann rekur m.a. fyrirtæki sem framleiðir te, þar vann ég fyrir hann og fékk því innsýn í tereksturinn. Mamma talaði um að breyta kannski Álfabúðinni í kaffihús og hafa te frá fyrirtæki pabba. En svo kláraðist lagerinn hans og ákváðum við þá að búa til teið sjálfar út frá uppskriftum hans,“ segir Elena Dís. Miklar pælingar liggi að baki hverri blöndu um áhrif hverrar jurtar fyrir sig. 

Elena Dís og móðir hennar, Tinna Bessadóttir, fá sér vænan tesopa.

Var að klára Verzló 

Elena Dís segist vera mjög heppin með að spreyta sig á að reka Litlu Álfabúðina og það sé í raun í beinu framhaldi af áherslum í Verzló. „Ég útskrifaðist af viðskiptalínu á viðskiptabraut. Þar lærði ég meðal annars markaðsfræði og frumkvöðlafræði og við áttum í náminu að skrá og reka fyrirtæki með áherslu á verndum sjávar og umhverfismálum, gera viðskiptaáætlun og lokaskýrslu. Það gerði ég ásamt 5 öðrum stelpum. Um var að ræða framleiðslu og sölu á margnota andlitshreinsiskífum, sem voru heklaðar öðru megin og úr lífrænu bómullarefni á hinni hliðinni. Fyrirtækið kölluðum við Hnoðri, bjuggum til síðu á Instagram og Facebook og seldum svo mikið að við höfðum ekki undan að framleiða. Handheklað öðrum megin og lífrænt bómullarefni hinum megin sem þvo má milli skipta.“ 

María Ísól, litla systir, er dugleg aðstoðarkona og afar kunnug staðháttum í Hellisgerði.

Stefnir á viðburði líka 

Aðspurð segist Elena Dís hlakka mikið til að taka á móti Hafnfirðingum og öðrum gestum í sumar. Hún stefnir á, ásamt fjölskyldu sinni, að bjóða upp á einhverja viðburði í Hellisgerði. „Ég æfði dans og einn danskennarinn minn ætlar að bjóða upp á jóga hérna nokkrum sinnum einhvern tímann í sumar og svo verða örugglega einhverjir litlir viðburðir fyrir yngstu kynslóðina. Svo stefnum við á að hafa árlegu Álfahátíðina á sama tíma og Vegan hátíðin verður um miðjan ágúst. Þetta er svo fallegur staður og fjölskylduvænn og á að nýta betur. Ef lítið verður að gera á einhverjum dögum þá ætla ég bara að dunda við að búa til Instagram síðu fyrir teið sem ég bý til og sel í vefverslun,“ segir Elena Dís ofurjákvæð að lokum.  


Myndir: OBÞ