Hafrannsóknastofnun, rannsókna‐ og ráðgjafarstofnun hafs og vatna er flutt í nýtt og glæsilegt hús að Fornubúðum. Á sjómannadaginn 7. júní milli kl. 13 og 17 býður Hafrannsóknastofnun öllum að skoða húsið. Stutt kynning verður á starfseminni og veitingar í boði.
Með þessu verður starfsemi Hafrannsóknastofnunar á höfuðborgarsvæðinu loks komin á einn stað. Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson fá lægi framan við húsið við Háabakka, nýjan hafnarbakka í Hafnarfjarðarhöfn.

Í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun segir að í húsinu að Fornubúðum starfi um 130 manns og að auki séu um 40 manns í áhöfnum skipanna. Þá sinni margir háskólanemar námsverkefnum sínum í húsinu.
Hafrannsóknastofnun rekur einnig Sjávarútvegsskóla Þróunarsamvinnumiðstöðvar UNESCO sem er hluti af GRÓ ‐ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem er einn
vettvangur þróunarstarfs utanríkisráðuneytisins.
Húsið er stærsta timburhús landsins, reist af Fornubúðum ehf. Timbur var sérstaklega valið sem byggingarefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, bæði á byggingartíma og í rekstri hússins í samræmi við markmið Hafrannsóknastofnunar sem umhverfisvænnar stofnunar.
Gestir eru beðnir um að sýna tillitsemi vegna sóttvarna en talið verður inn og út úr húsinu. „Við erum öll almannavarnir“.
Mynd/OBÞ