Fimleikafélagið Björk hefur haldið úti öflugri starfsemi í Hafnarfirði í tæplega 70 ár og í gegnum tíðina hefur fjöldi afreksfólks æft hjá félaginu og skilað mörgum glæsilegum sigrum í hús. Ragnheiður Jenný Jóhannsdóttir er 12 ára upprennandi fimleikastjarna sem hefur staðið sig frábærlega í áhaldafimleikum undanfarin ár.
„Ég byrjaði átta ára í fimleikum. Það telst nú frekar seint í þessari íþrótt en margar stelpur byrja að mæta á æfingar þriggja til fjögurra ára gamlar. Ég hef alltaf æft hjá Björkunum í Hafnarfirði, enda Hafnfirðingur í húð og hár. Ég fæddist reyndar í Vestmannaeyjum en mamma og pabbi fluttu hingað í Hafnarfjörðinn þegar ég var tveggja vikna. Við búum á Völlunum og þar sem pabbi er mikill handboltaáhugamaður lá kannski beinast við að ég færi beint í handbolta en mig langaði alltaf í fimleika og ég sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun,“ sagði Ragnheiður þegar við hittum hana í íþróttahúsi Bjarkanna við Haukahraun.
Ragnheiður var að keppa nýverið á sterku móti í Noregi og náði eftirtektarverðum árangri.
„Við vorum nokkrar að keppa á einstaklingsmóti sem haldið var í Osló og það gekk mjög vel. Ég lenti í öðru sæti og það kom mér mikið á óvart. Ég var eini Íslendingurinn sem komst á verðlaunapall og var í raun sorglega nálægt því að vinna gullið. Svo varð ég Íslandsmeistari í öðru þrepi á síðasta Íslandsmóti og átti þar á undan Íslandsmeistaratitil í fjórða þrepi.“

Ragnheiður Jenný ætlar að ná langt. Mynd: Olga Björt
Frábært starf unnið í Björk
Allt íþróttafólk á sterkar og veikar hliðar í sinni íþrótt. Hvernig skyldu þessir þættir vera hjá Ragnheiði?
„Mér hefur alltaf gengið mjög vel í gólfæfingum og svo er ég alveg ágæt á slá. Minn styrkur er kannski að vera nokkuð jafngóð á öllum áhöldum. Það getur verið mjög gott að vera alhliða góð í áhaldafimleikum því að þú safnar stigum í heildarkeppninni og það er hægt að vinna mót, þó að maður vinni ekki eina einustu grein á mótinu. Tvísláin hefur kannski helst verið að stríða mér og ég er ekki oft að ná að fara hringinn og beint upp í handstöðu. Það þarf bara æfa meira og bæta sig,“ segir Ragnheiður ákveðin.
Fimleikafólk er yfirleitt ekki að stunda þessa gríðarlega krefjandi íþrótt langt frameftir aldri
„Þær bestu á Íslandi eru flestar komnar yfir tvítugt en hjá Björkunum er margar mjög góðar sem eru 17-18 ára. Það má kannski segja að 16-23 ára sé góður aldur en það er auðvitað ekkert algilt. Það eru til flottar fimleikakonur á öllum aldri. Það er samt þannig að yfirleitt hætta komur fyrr í fimleikum heldur en t.d. í boltagreinum. Það þarf að æfa ansi mikið í fimleikum og ég fer sex sinnum í viku á æfingu og er yfirleitt 2-3 klukkutíma í senn. Það kemur alveg fyrir að fimleikarnir skarast á við eitthvað skemmtilegt í einkalífinu og það getur verið smá fúlt en mér finnst bara svo gaman í fimleikum að ég hristi það bara af mér og mæti á æfingu.“
„Við erum mjög heppnar með þjálfara. Jóhannes Níels Sigurðsson og landsliðsþjálfarin Hildur Ketilsdóttir þjálfa okkur og eru bæði mjög fær. Við höfum náð að halda hópinn ágætlega í gegnum tíðina en það voru samt nokkrar stelpur að hætta fyrir ekki svo löngu. Hópurinn okkar er nokkuð stór og við erum kannski 14-15 að mæta á æfingu í mínum flokki. Við erum ofsalega góðar vinkonur allar og það gerir auðvitað æfingarnar skemmtilegri,“ segir Ragnheiður brosandi.

Liðleiki er lykilatriði í fimleikum. Mynd: Olga Björt
Ætla mér að ná langt
Það er ekki mikið pláss fyrir mistök í fimleikum og eitt lítið óhapp getur kostað keppanda möguleika á verðlaunum. Andlegur styrkur á slíkum stundum er mjög mikilvægur að mati Ragnheiðar sem stefnir hátt í framtíðinni.
„Það er alls ekki gott að hengja haus þegar illa gengur. Maður sér stundum keppendur gefast upp við eitt fall af slá og þá fylgja fleiri áföll í kjölfarið. Það er mikilvægt að halda haus og ég tel mig nokkuð sterka í þessum þáttum. Mig langar að byrja á því að komast í unglingalandsliðið og fara á Evrópu- og heimsmeistaramót erlendis. Það voru tvær stelpur úr Björk að keppa á EM í Póllandi nýlega og mig langar líka að upplifa svoleiðis hluti. Þegar kemur að mótum þá reynir maður yfirleitt ekki við einhverjar æfingar sem hafa kannski náðst einu sinni á æfingum. Maður fer í hluti sem eru nokkuð öruggir, því að þú vilt ekki eyðileggja allt mótið með því að klúðra einni æfingu og missa af dýrmætum stigum. Ég var t.d. með eitt stökk, svokallað „yfirslag-framheljar“ sem mér leið voða vel með og ætlaði að nota í keppni. Svo þegar á reyndi var ég ekki alveg örugg og notaði því önnur auðveldari stökk.“
Átökin eru gríðarleg í þessari íþrótt og brothættur blaðamaðurinn þorir ekki annað en að spyrja hvort að það sé algengt að meiða sig í fimleikum.
„Það er auðvitað hægt að meiða sig í fimleikum en það er bara eins og í öðrum íþróttum. Ég hef sjálf aldrei lent í alvarlegum meiðslum en samt orðið fyrir einhverjum minniháttar meiðslum. Það er t.d. ekkert rosalega þægilegt að vera í heljarstökki af tvíslá og fara með sköflunginn beint í ránna. Svo fékk ég svokallað „jumpers-knee“ í fyrra en það er farið núna,“ segir Ragnheiður létt.
Ísland hefur aðeins átt einn kvenkyns keppanda í fimleikum á Ólympíuleikum en það var hin rússnesk-ættaða Irina Sazonova sem keppti fyrir Íslands hönd í Ríó 2016. Er Ólympíudraumurinn fjarlægur eða gætum við séð Ragnheiði Jenný á Ólympíuleikum einn góðan veðurdag?
„Ég get ekki alveg lofað því en ég ætla auðvitað að reyna mitt besta,“ sagði Ragnheiður brosandi að lokum