Á Íþróttahátíð Hafnarfjarðar 27. desember fékk Íþróttabandalag Hafnarfjarðar viðurkenninguna Fyrirmyndarhérað ÍSÍ. ÍBH er þar með 6. bandalagið til að hljóta viðurkenninguna. Hafnfirðingur hitti Hrafnkel Marinósson, formann ÍBH, og spurði nánar út í þetta og starf félagsins í þessum mikla íþróttabæ sem Hafnarfjörður er. 

Í Hafnarfirði eru um 16 þúsund íþróttaiðkendur. Það er meira en helmingur bæjarbúa. Hafnarfjarðarbær var fyrsta sveitarfélagið á landinu til að byrja með frístundastyrki árið 2002. Önnur sveitarfélög fylgdu í kjölfarið. Íþróttabandalag Hafnarfjarðar var stofnað 1945 og verður því 75 ára í ár. Aðildarfélögin eru 23 en um 30 íþróttagreinar eru þó stundaðar í bænum. Hrafnkell hefur verið formaður ÍBH síðan 2008, en áður var hann formaður Sundfélags Hafnarfjarðar. Eini starfsmaður ÍBH er Elísabet Ólafsdóttir og skrifstofan er í Íþróttahúsinu við Strandgötu. 

Hrafnkell tekur á móti viðurkenningunni á Íþróttahátíð Hafnarfjarðar úr hendi Sigríðar Jónsdóttur, 1. varaforseta ÍSÍ. Mynd/OBÞ

Uppfylla þarf gátlista ÍSÍ

Þegar Hrafnkell var formaður SH 1998 var hann, ásamt fleirum, fenginn til að búa til ramma utan um það sem kallaðist fyrirmyndarfélag. „Það gekk m.a. út á að allt ætti að vera aðgengilegt fyrir foreldra, s.s. verklýsingar og staðlar. Síðan þá höfum stefnt markviss að því að uppfylla þessi skilyrði sem fyrirmyndarhérað. Til þess þarf að uppfylla gátlista sem ÍSÍ gefur út og skiptist í 4 aðalatriði og enn fleiri undiratriði. Það átta sig ekki allir á vinnunni og skipulaginu sem fylgir því að ná þessum árangri. Okkur þykir alveg svakalega vænt um þetta,“ segir Hrafnkell og hrósar sérstaklega starfsmanninum Elísabetu og hennar mikilvæga utanumhaldi, sem í raun sé ótrúlegt að ein manneskja nái að anna. Þá sé starfandi íþrótta-, tómstunda- og forvarnafulltrúi, einn og sami maður, sem að mati Hrafnkels ætti að vera í stærra starfshlutfalli. „Forvarnagildið er alveg klárt og hefur margsannað sig og fíkniefnavandi er áberandi lítill meðal þeirra ungmenna sem æfa fjórum sinnum í viku.“ 

Eftir undirritun síðasta samstarfssamnings ÍSAL, Hafnarfjarðarbæjar og ÍBH. Mynd/OBÞ

Eru að njóta velgengni undanfarinna ára

Hrafnkell segir að stöðugleiki og fagmennska séu það sem valdi því að bæjaryfirvöld vita að þau geta treyst ÍBH. „Starf okkar byggir á góðu samstarfi við bæjaryfirvöld og styrktaraðilann ÍSAL og ég er afar þakklátur fyrir góða beintengingu við þessa aðila. Í desember skrifaði ég í 4. sinn undir samstarfssamning sem var áður til 3ja ára í senn en er núna til eins árs því ÍSAL er í söluferli.“

Hrafnkell segist verða að vera alveg heiðarlegur með það að það þurfi meira fjárfmagn til. „Það er að fjara undan afrekssjóðnum sem stofnaður var 1988 m.a. vegna þess að aðildarfélög ÍBH eiga mikið af landsliðsfólki og yngstu hóparnir fá lítið sem ekkert. Við erum íþróttabær en verðum að passa okkur á því að við erum í dag að njóta velgengni undanfarinna ára og ef bærinn heldur sömu upphæðum á meðan allur kostnaður hækkar, þá mun þetta bitna á starfinu á næstu árum,“ segir Hrafnkell. Mikið frumkvöðlastarf hafi verið unnið í Hafnarfirði í gegnum tíðina í íþróttamálum með samhentu átaki ÍBH og Hafnarfjarðarbæjar. „Niðurskurðaraðgerðir frá 2009 hafa veikt verulega þetta forystuhlutverk og þeim niðurskurði hefur aldrei verið skilað til baka.“

Aðildarfélög innan ÍBH eru 23. Bogfimifélagið Hrói höttur er nýjasta félagið. Á myndinni eru Sveinn Stefánsson formaður, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi.

Leysa ágreining

Hrafnkell segir eitt af hlutverkum sínum sem formanns sé að leysa ágreining milli því oft séu átök á milli félaga eða jafnvel innan félaga. „Við erum málpípa á milli félaganna og bæjaryfirvalda, þótt stóru félögin tali stundum beint við bæjaryfirvöld. Ég reyni ekki að þóknast í mínu starfi og legg mig fram við að vera ærlegur og réttlátur.“ Einnig nefnir hann, í tengslum við umræðu um misjafna aðstöðu til iðkunar, að bæjarsjóður kaupi tíma í íþróttahúsunum (sem bærinn á) og deili svo út með aðkomu aðildarfélaga ÍBH. „Við erum stoppistöð og höfum reynt að gera þetta á eins heiðarlegan hátt og hægt er. En það vantar miklu fleiri tíma til að gera betur.“

Hrafnkell í húsnæði Íþróttahússins við Strandgötu, þar sem skrifstofa ÍBH er. Mynd/OBÞ

Hvatningakefi og viðbragðsteymi

Stjórn ÍBH er skipuð 8 manns og formanni og er kosin á þingi á tveggja ára fresti. Félögin stilla fólki upp sem kosið er um og þar er langoftast um að ræða karla. „Við erum að reyna að vanda okkur við kynjahlutföll og staðan er sú að engin kona er í stjórn núna. Næst ætlum við að hleypa fjórum stigahæstu körlum inn og fjórum stigahæstu konunum, auk 11. og 12. manni sem verður hvaða kyn sem er,“ segir Hrafnkell.

Þá séu félög launuð með 500 þúsund króna hvatningarstyrkjum sem m.a. minnka kynjahalla iðkenda yngri en 18 ára mest á milli ára. „Svo erum við með viðbragðsáætlun meðal íþróttafélaganna í tengslum við andlegt og líkamlegt ofbeldi. Hægt er að tala óhikað við okkar 2ja manna viðbragðsteymi eða mig beint. Svo er kanall frá okkur og til ÍSÍ. Við höfum tekið fyrir erfið mál. Við líðum ekki ofbeldi í okkar starfi og viljum vera það bakland sem ungt fólk þarf ef það treystir sér ekki til að tala við foreldra eða þjálfara.“