Kirkjubrall eða Messy Church fór fram í Hafnarfjarðarkirkju þarsíðasta sunnudag. Þar tóku börn og fullorðnir sameiginlega þátt í sköpun, leikjum, borðhaldi og helgihaldi. Tilgangurinn er að fjölskyldan geti átt gæðastund þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi.

Að þessu sinni var þemað OFURHETJUR. Á hinum ýmsum stöðvum var t.a.m. hægt að hanna sínar eigin ofurhetjuskikkjur, -grímur og -barmmerki, leira, taka því rólega, fá útrás í hreyfingu, velta fyrir sér sínum styrkleikum og margt fleira.

Jasper Bunch og Kristrún Guðmundsdóttir, starfmenn úr æskulýðsstarfi Hafnarfjarðarkirkju, sáu um spennandi leik fyrir fermingarbörn og aðra unglinga sem mættu. Barna- og unglingkórar Hafnarfjarðarkirkju sungu í helgistundinni og að henni lokinni var léttur hádegisverður.

Umsjón með stundinni höfðu sr. Jón Helgi Þórarinsson, Bylgja Dís Gunnarsdóttir fræðslu- og æskulýðsfulltrúi, Helga Loftsdóttir kórstjóri, Guðmundur Sigurðsson organisti, Einar Örn Björgvinsson kirkjuvörður ásamt mörgum öðrum.

Myndir/OBÞ