Það er einstakt afrek að sigra þrjú ár í röð á Íslandsmótinu í golfi. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, íþróttakona Hafnarfjarðar 2020, er ein fárra kvenna til að ná þeim árangri. Hún er fædd árið 1994 og hefur alla tíð leikið fyrir Golfklúbbinn Keili, gerðist atvinnukylfingur árið 2018 og er með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni, sem er sterkasta atvinnumótaröð í kvennaflokki í Evrópu. Á heimslistanum fór Guðrún Brá upp um tæplega 200 sæti í fyrra og er nú nr. 861. Við kræktum í smá spjall með þessari mögnuðu íþróttakonu. 

Guðrún Brá þegar hún tók við viðurkenningunni Íþróttakonar Hafnarfjarðar í lok árs 2020. Mynd/OBÞ

Guðrún Brá tók á móti Hafnfirðingi á æskuheimili sínu í við Álfaskeið. Til dyra koma einnig þrír heimilishundar, hver öðrum ljúfari, en kylfingurinn er mikill hundavinur og gerir mikið af því að ganga úti með hundana sína. Guðrún Brá á ekki langt að sækja golfhæfnina og hvatninguna, því faðir hennar, afrekskylfingurinn Björgvin Sigurbergsson er þjálfarinn, móðirin Heiðrún Jóhannsdóttir aðstoðar- og stuðningsmaður og bróðirinn Helgi Snær einnig mjög góður í golfi. „Það er endalaus stuðningur frá þeim og það er gott að geta búið hérna. Pabbafjölskylda er öll í golfi og dálítið af mömmufólki líka svo að það er fylgst með mér úr öllum áttum. Það hjálpar mjög mikið. Svo er mamma hörkudugleg í þessu, komin með 17 í forgjöf,“ segir Guðrún Brá stolt og bætir við að faðir hennar hafi alltaf verið henni fyrirmynd. „Ég hef alltaf fylgst með honum þjálfa, spila og keppa. Það hefur mótað mig að hann hefur bæði kennt mér að sigra og tapa. Við náum svo vel saman og erum lík í okkur.“ 

Fór úr fótbolta yfir í golfið

Eitt mót markaði kaflaskil þegar Guðrún Brá var 13 ára. „Ég var á fullu í fótbolta með Haukum og fannst það skemmtilegra, sérstaklega félagslega séð. Mætti á æfingar með vinkonum. Frænka mín var á þessum tíma að æfa golf og ég kom bara ef hún var. Svo keppti ég á fyrsta GSÍ unglingamótinu mínu, fékk 56 punkta sem lækkaði forgjöfina verulega og vann mótið. Spilaði mína tvo bestu hringi þá, en var annars sem krakki að spila á allt að 130 höggum eins og flestir sem eru að byrja. Svo kviknaði áhuginn í kjölfarið og smám saman skipti ég úr fótboltanum þegar álagið var orðið of mikið að vera í tveimur íþróttum. Þegar ég var 17 ára fór ég svo alveg yfir í golfið.“

Guðrún Brá á einum af sínum uppáhalds golfvöllum á Íslandi, í Vestmannaeyjum. Mynd/seth

Fjölskylduíþrótt með marga möguleika

Guðrún Brá lærði hreyfifræði í Bandaríkjunum og hún segir að þar sé tekið fram að mikilvægt sé að börn prófi alls kyns íþróttir. „Það hjálpi með kraft, snerpu, styrk og allskonar. Golf er t.d. íþrótt þar sem fáir toppa ungir í aldri, ólíkt öðrum íþróttum eins og til dæmis dansi og fimleikum. Þetta kemur með reynslunni.“ Hún segist einnig ánægð með hversu mikið viðhorf til golfíþróttarinnar hefur breyst á 10 árum. „Áður þótti það pínu hallærislegt en allt í einu varð golfið trend og það býður líka upp á svo marga möguleika, s.s. að spila með afa sínum, vinum og litlu frænku. Svo eru það golfferðirnar og hitta aðra félaga í golfskálanum. Þetta er fjölskylduíþrótt og við fjölskyldan fórum hringinn og spiluðum á mörgum golfvöllum, það var mjög skemmtilegt.“ Spurð um uppáhalds völl, fyrir utan Keili, segir Guðrún Brá verða hrifin af Brautarholtsvelli og í Vestmannaeyjum. „En það toppar fátt umhverfið á Hvaleyrinni! Það eru 65 golfvellir á Íslandi og það er mikið miðað við höfðatölu og margt um að velja.“ 

Tekjuhliðin árangurstengt hark

Spurð um fjárhagshliðina á tímum covid segir Guðrún Brá þetta vera mikið hark. Ég er í hópi atvinnukylfinga sem fá styrk frá félagi sem heitir Forskot sem hefur stutt við keppnisferðalögin seinustu 3 ár. Svo eru aðrir sem hjálpa mér og ég er þakklát fyrir það en það hefur verið erfitt á tímum covid. Launin mín eru árangurstengd við mótin sem ég keppi í. Það sem mér finnst oft líka erfitt er að vera ekki hluti af liði og þannig ekki á launum eða með samning líkt og atvinnumenn í til dæmis fót- og handbolta. Núna á Covid tímum er ég heppin að komast á æfingasvæðið og jafnvel í ræktina, á meðan vinkonur mínar erlendis hafa ekkert getað spilað að ráði vegna útgöngubanns. Þetta tímabil kennir okkur líka þrautseigju og þakklæti. Það er mikil óvissa ennþá hjá mér varðandi næstu mót enn framundan er 3ja mánaða undirbúningstímabil þar sem ég legg áherslu á tækniæfingar og líkamsrækt. Svo er líka nauðsynlegt að kunna að setja golfið til hliðar öðru hverju og einbeita mér að einhverju öðru,“ segir Guðrún Brá brosandi að endingu. 

Forsíðumynd af Guðrúnu Brá og Lótusi/OBÞ