Fyrsta ferð leiðar nr. 19 í nýju leiðaneti Strætó fór frá Kaplakrika kl. 9.25 í morgun. Hluti af starfshópi og bæjarstjórn Hafnarfjarðar var á svæðinu og tóku þátt í þessari sögulegu ferð, þ.á.m. Helga Ingólfsdóttir, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar.

Í dag tekur gildi nýtt og einfaldara leiðanet hjá Strætó í Hafnarfirði. Leiðir 22, 33, 34, 43 og 44 munu hætta akstri.  Ný leið 19 og lengri leið 21 munu leysa þær af hólmi.

Leið 44 er ein þeirra sem fóru sína síðustu fer í gær. Mynd/OBÞ

Á næstu árum munu almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu taka miklum breytingum. Stærstu umbótarverkefnin eru annars vegar uppbygging á Borgarlínu innviðum fyrir hraðvagnakerfi (BRT) og hins vegar endurskoðun á leiðaneti Strætó vegna uppbyggingar Borgarlínu þar sem þörf er á að aðlaga leiðanetið að Borgarlínu og nýta innviði hennar. Þannig verði stuðlað að því að almenningssamgöngukerfið virki sem ein heild.

Þessi breyting í Hafnarfirði er því fyrsta skrefið í átt að Nýju leiðaneti Strætó og Borgarlínu. 

Þessi vagn var „Leið 19“ sem fór fyrstu ferð í morgun, þótt hann sé ekki merktur þannig á myndinni. Mynd/Hafnarfjarðarbær

Leið 19 

Leið 19 mun aka frá Kaplakrika, um Hjallabraut, Setberg, Ásabraut, til Ásvallalaugar og til baka. Leiðin ekur skv. 15 mínútna tíðni á annatímum og 30 mínútna tíðni utan annatíma. Tengingar við leiðir 1, 21 og 55 verða í Firði.

Tímatöflu leiðarinnar má nálgast hér.

Leið 21

Leið 21 lengist og mun aka milli Mjóddar og Miklaholts í stað þess að aka á milli Mjóddar og Fjarðar. Leiðin mun áfram aka á 30 mínútna fresti allan daginn. Tengingar við leiðir 1, 19 og 55 verða í Firði.

Tímatöflu leiðarinnar má nálgast hér.

Hér fyrir neðan má finna leiðakort af Hafnarfirði eftir að breytingin tekur gildi.