Einar Bárðarson, fyrrverandi samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, lokar 20 ára höfundarafmælisári með útgáfu á plötunni Myndir og útgáfutónleikum í Bæjarbíói í á laugardag. Fyrsta lag sem Einar sendir frá sér í yfir í tíu ár verður frumflutt á útvarpsstöðvum landsins í vikunni. Lagið heitir “Okkar líf” og eru flytjendur lagsins höfundurinn sjálfur og nafni hans og vinur til áratuga, Einar Ágúst Víðisson úr Skítamóral. Lagið er bæði falleg ástarsaga og einnig samið og tileinkað Sálinni hans Jóns míns, sem hætti störfum í haust. 

ÚR TEXTA LAGSINS:
Er ég heyri Sálina
hljóm’ í gegnum nóttina
Er ég heyri „Okkar nótt“
Þá koma fljótt
Allar þessar minningar
Allir þessir vinningar
Sem breyttu „Okkar nótt“
Sem breyttu „Okkar nótt“
Í „Okkar líf“

Tökum og vinnslu á laginu lauk eftir áramót en lagið var þó flutt á höfundarafmælistónleikum Einars í Bæjarbíói í nóvember. Þá náðist flutningurinn á myndavélar innahúss-öryggiskerfisins sem býr yfir nokkum góðum gæðum. „Við sáum þetta myndefni sem er kannski ekki alveg í takti við lokaupptökuna en við ákváðum til gamans að láta það ekki trufla okkur og klippa til myndband úr þessum vélum og einhverju efni frá gestum tónleikanna. Úr því varð þetta ágæta myndband,“ segir Einar. „Við erum líka minna líkir Brad Pitt en við héldum þannig að þetta þarf nú ekki að hafa neinn Hollywood blæ. Þetta, eins og afmælisupptökurnar, eru til gamans og góðra minninga gert,“ bætir Einar við. „Nafni minn er nú reyndar miklu vanari öryggismyndavélum í seinni tíð en hefðbundnum.“

Ástarsaga úr borginni
„Það sem ég sá og heyrði Sálina gera í popptónlist varð það mér hvatning til þess að fara að semja og búa til tónlist sjálfur upp úr 1989. Ég hef fylgt þeim síðan og fylgst með. Auðvitað getur maður talið sig ríkan fyrir það eitt hafa hafa seinna kynnst þeim og unnið með þeim í kynningarverkefnum og tónleikahaldi,“ sagði höfundurinn. Þráðurinn í textanum er þó engu að síður lítil ástarsaga úr borginni. Saga sem byrjar á tónleikum Sálarinnar hans Jóns míns í Loftkastalanum 12. ágúst árið 1999, þar sem hljómsveitin frumflutti lagið “Okkar nótt”. Það voru gestir þar sem voru að fara á eina af sínum fyrstu tónleikum saman og lagið varð lagið „þeirra“. Það markaði tímamót í þeirra lífi og þannig fóru þau í gegnum lífið saman. Textinn er að hluta til byggður á mínu eigin lífi en ég þekki mörg pör sem tengja við þessa sögu og eiga eitt að tvö sálarlög sem eru „lögin þeirra“ eins og fólk segir”, bætir hann við.MYNDIR í verslanir um helgina
Lagið er eins og fyrr segir hluti af plötunni “Myndir” sem er að koma út um næstu helgi, þar sem þekktustu lög Einars koma út í nýjum útgáfum með nýjum flytjendum. Lagið er samið af Einari og hefur sem slíkt verið í vinnslu í um það bil 5 ár, en Bragi Valdimar Skúlason og Einar unnu textann saman og var hann kláraður í haust.

Föstudaginn 8. febrúar næstkomandi kemur í verslanir hljómplatan Myndir en þar er um að ræða upptökur af vinsælustu lögum Einars Bárðarsonar. Einar fagnaði 20 ára höfundarafmæli á síðasta ári og fóru upptökur fram allt síðasta ár undir stjórn Þóris Úlfarssonar. Platan inniheldur meðal annars lagið Ég sé þig í flutningi Jóhönnu Guðrúnar, sem og hið goðsagnakennda „Farin“ í flutningi Klöru Elíasdóttur. Þessar útgáfur hafa vakið mikla athygli í útvarpi síðustu vikur.

Í vor voru 20 ár frá því lagið „Farin“ kom út með hljómsveitinni Skítamóral en lagið varð þeirra allra vinsælasta og sló í gegn nánast á einni nóttu. Svo fylgdu lögin með eitt af öðru; Birta, Spenntur, Myndir, Ennþá, Ég sé þig og fleiri og fleiri. Það er tónlistarmaðurinn og upptökustjórinn Þórir Úlfarsson sem stýrir upptökum á plötunni en hún verður bæði ljúf og hrjúf í anda höfundarins, með Nashville áhrifum, en Einar hefur alla tíð sótt sinn innblástur til amerískrar country-skotinnar dægurtónlistar. Á plötunni er ætlunin að setja ákveðna heildarmynd á þessi vinsælustu lög Einars og hugmyndin er að þessi helstu verk höfundar fái nýtt og heimilislegt líf í flutningi hans og félaga.

„Ég á þessum og öðrum listamönnum allt að þakka þegar kemur að minni aðkomu í tónlist. Sagan hefur oft snúið því þannig að Skítamórall eigi mér margt að þakka en það er þver öfugt. Ég á þeim allt að þakka. Þeir veðjuðu á fyrsta lagið mitt þegar frægðarsól þeirra var fyrir alvöru að taka á loft og ef þeir hefðu ekki valið að gera Farin að fyrsta útvarpslagi af plötunni Nákvæmlega, þá veit ég ekki hvernig líf mitt hefði þróast. Þannig að ég á þeim nánast allt að þakka,“ segir Einar.

Nafn plötunnar Myndir er vitaskuld tilvísun í eitt þekktasta lag Einars en um leið eru lögin hversdagslýsingar á lífi fólks eða myndir af lífi þess, eins og höfundurinn útskýrir nafngiftina. Meðal annarra flytjenda á plötunni eru Sigga Beinteins, Magni, Birgitta Haukdal, Friðrik Ómar, Stefán Hilmarsson, Einar Ágúst, Gunni Óla, Ingó, Karítas Harpa, Birgir Steinn og þá syngur Klara dóttir Einars lag á plötunni sem upprunalega var flutt af Nylon flokknum.

„Svo er það nú þannig að lífið fer í hringi. Steinunn Camilla sem var í Nylon flokknum hjá mér er eiginlega orðin hálfgerður umboðsmaður hjá mér og er að vinna í að aðstoða mig við útgáfuna á þessum disk en er bæði gaman og er ég í góðum höndum líka,“ segir hann.

Höfundurinn ætlar að fagna útgáfu plötunnar með sögustund og „singalong“ tónleikum í Hvíta húsinu á Selfossi föstudagskvöldið 8. febrúar og svo í Bæjarbíói í Hafnafirði, laugardagskvöldið 9. febrúar, ásamt fríðu föruneyti. Miðasala er hafin á báða tónleikanna á midi.is.

Úrval söngvara kemur fram með Einari á tónleikunum og hljómsveitina skipa þeir Þórir Úlfarsson á píanó og hammond, Eiður Arnarsson á bassa, Hannes Friðbjarnarson á trommur og þeir Kristján Grétarsson og Pétur Valgarð Pétursson á gítara.

Útsetningar- og upptökustjórn: Þórir Úlfarsson

1.     Farinn 4:00 (Skítamórall 1998, þá sem Farin) Klara Ósk Elíasdóttir ásamt Friðriki Ómari
2.     Bara í nótt 4:29 (Nylon 2004) Magni Ásgeirsson
3.     Síðasta sumar 3:51 (Nylon 2004) Klara Einarsdóttir og Einar Bárðar
4.     Myndir 3:42 (Skítamórall 1999) Ingólfur þórarinsson
5.     Okkar líf  3:42 – (Áður óútgefið) Einar Ágúst og Einar Bárðar ásamt Stefáni Hilmarssyni
6.     Birta 3:01 (Söngvakeppni Sjónvarpsins 2001) Kristján Gísla og Gunnar Óla
7.     Allt 4:33 (Á móti sól 2002) Karítas Harpa
8.     Tætt 3:29 (Nylon 2004) Sigga Beinteins
9.     Ég sé þig 4:26 – (Björgvin Halldórsson 2002) Jóhanna Guðrún
10.   Ennþá 4:35 (Skítamórall 2002) Birgitta Haukdal
11.   Spenntur 4:02 (Á móti sól 2002) Gunnar Óla og Karítas Harpa
12.   Allsstaðar 4:42 – (Nylon 2004) Birgir Steinn

Upptökur fóru fram í Sýrlandi og Furunni í mars 2018 til janúar 2019
Stjórn upptöku og hljóðblöndun: Þórir Úlfarsson.
Mastering: Addi 800
Hönnun á umslagi: Villi Warren
Ljósmyndir: Arnold Björnsson

Stafræn miðlun og dreifing: Steinunn Camilla Sigurðardóttir, Icelandic Sync

Umsjón með upptökum og framleiðslu: Einar Bárðar og Þórir Jóhannsson

Útgefandi: Meðbyr ehf