Stjórn Strætó bs. og Hafnarfjarðarbær hafa samþykkt breytingar á leiðanetinu innan sveitarfélagsins sem áætlað er að munu ataka gildi í júní 2020. Í breytta netinu munu leið 19 og lengri leið 21 leysa leiðir 22, 33, 34, 43 og 44 af hólmi. Hafnfirðingur spurði Guðmund Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúa Strætó bs. nánar um þetta og hugtökin þátttökukerfi og þekjandi kerfi. 

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó bs. Mynd aðsend.

„Núverandi kerfi í Hafnarfirði hefur þótt nokkuð flókið og óhagkvæmt fyrir notendur. Til að mynda eru leiðir nr. 22, 33, 34, 43 og 44 minnst notuðu strætóleiðirnar á öllu höfuðborgarsvæðinu,“ segir Guðmundur. Með breytingunni muni leið 19 aka um Ásbraut, Ásland, Hlíðarberg, Lækjargötu, Fjarðargötu, Vesturgötu, Herjólfsgötu og Hjallahraun. Ekið verður skv. 15 mínútna tíðni á annatímum og 30 mínútna tíðni utan annatíma. „Tengingar við leiðir 1, 21 og 55 verða í Firði og leið 21 mun lengjast. Í stað þess að aka milli Fjarðar og Mjóddar verður ekið á milli Háholts og Mjóddar. Áætlað er að þessar breytingar taki gildi í júní 2020.“

Leið 22 eins og hún er í dag.
Leið 33 eins og hún er í dag.
Leið 34 eins og hún er í dag.
Leið 43 eins og hún er í dag.
Leið 44 eins og hún er í dag.
Leið 19, eins og hún mun vera árið 2020.
Leið 21 eins og hún mun líta út árið 2020.

Þekjandi kerfi og þátttökukerfi

Guðmundur segir að núverandi leiðanet Strætó sé að miklu leyti skipulagt sem þekjandi kerfi (e. coverage). Því sé best lýst þannig að algengt sé að vagnar leggi lykkju á leið sína til þess að ná viðkomu í sem flestum hverfum á höfuðborgarsvæðinu. „Með slíku fyrirkomulagi dreifist þjónustan yfir stærra landsvæði, ferðatími eykst, tíðni minnkar og farþegar eru ekki eins margir. Kosturinn við svona kerfi þó að yfirleitt er stutt í næstu biðstöð. Í framtíðarmótun leiðanets Strætó og Borgarlínu verður hins vegar þyngri áhersla lögð á þátttökukerfi (e. ridership). Í slíku neti eru leiðirnar skipulagðar þar sem byggð er þéttust. Leiðirnar eru beinni, með örari tíðni, styttri ferðatíma og fleiri farþega. Á móti gætu farþegar þurft að fara lengri vegalengdir á næstu biðstöð.“   

Hér er slóð á breytta leiðanetið í Hafnarfirði.