Jóhannes Viðar Bjarnason opnaði veitingastaðinn Fjörukrána 10. maí 1990 og er hún því nýorðin 30 ára, en haldið verður upp á afmælið með ýmsum hætti á árinu. Hótelið var byggt í kringum aldamótin og nokkrum árum síðar bættust við víkingahúsin sem gerðu þennan vinsæla stað að sannkölluðu víkingaþorpi í hjarta Hafnarfjarðar. Við hittum Jóhannes og tvær af dætrum hans, Unni Ýri og Birnu.




Systurnar Unnur Ýr og Birna segja að faðir þeirra hafi alla tíð verið aðalhönnuður fyrirtækisins, þótt ekki væri handlaginn sjálfur, og kappkostað að láta staðinn vaxa og dafna á hverju ári. Sjálfur segist Jóhannes þekkja góða smiði og varla sé til spýta á staðnum sem ekki hefur verið skorið í. „Ameríkanarnir banka gjarnan í viðinn og halda að hann sé plast, segir Jóhannes og hlær. Fjörukráin er fyrir löngu orðin landsþekkt og er elsta veitingahús í Hafnarfirði og með þeim elstu á höfuðborgarsvæðinu. „Ég held að fjölmargir Hafnfirðingar hafi samt aldrei komið hér inn því erlendir ferðamenn hafa lengi verið í miklum meirihluta, enda staðurinn afar vinsæll meðal þeirra. Við viljum endilega fá heimabæjarfólkið hingað og aðra Íslendinga,“ segir Birna.





Fjölskylduvænn staður
Matseðlinum hefur verið breytt til að höfða meira til Íslendinga og verður t.a.m. nú í fyrsta sinn frá upphafi boðið upp á pizzur. Áfram verða vinsælir réttir eins og hamborgarar, kjúklingavængir, humar, lambaskankar og lamb með bernaise sósu. „Svo ætlum við að bjóða upp á smárétti sem gott er að fá sér með köldum drykk á happy hour tilboði og sitja hér fyrir framan í sólinni seinni partinn,“ segir Unnur Ýr. Fjörukráin er annars mjög fjölskylduvænn staður og þykir börnum skemmtilegt að fá víkingahatt og ganga um og skoða, því þar er margt að sjá um alla veggi, auk hænsna og dúfna í húsum fyrir utan. Nægt pláss er inni, stórir salir og mörg rými og auðvelt að sitja við annað hvert borð til að passa upp á fjarlægðarreglur.


Lifandi tónlist og skemmtun
Fjörukráin mun opna í kringum næstu mánaðamót og vera opin fimmtudaga til sunnudaga frá kl 17-22. „Barinn verður opinn lengur og að sjálfsögðu verður lögð áhersla á sérkenni Fjörukrárinnar, lifandi tónlist, en Kjartan Ólafsson hefur um langa hríð skemmt fólki á öllum aldri og af ýmsum þjóðernum og er góður í að lesa í hópa og stemningu. Önnur dagskrá og uppákomur verða auglýstar jafn óðum á Facebook síðu Fjörukrárinnar. Við ætlum a.m.k. að fara af stað með þetta og vonum að viðbrögðin verði góð. Við hlökkum mikið til,“ segja feðginin.



Þessi umfjöllun er kynning.
Forsíðumynd/OBÞ