Hafnfirðingur hefur fengið afar sterkan liðsauka, Þórunni Evu Guðbjargar Thapa, sem mun fjalla um íþróttir í prentútgáfunni og á vefnum og Facebook. Lesendur munu verða varir við hennar verk mjög fljótlega.

Þórunn hefur mikinn áhuga á íþróttum og hefur æft þær frá því að hún man eftir sér. Hún er útskrifuð sem sjúkraliði, ÍAK einkaþjálfari og viðburðastjóri frá Hólum í Hjaltadal.

Eiginmaður Þórunnar er Kjartan Ágúst Valsson, yfirþjálfari Badmintonfélags Hafnarfjarðar og framkvæmdastjóri Badmintonsambands Íslands. Synir þeirra tveir æfa báðir badminton hjá BH.

Heilsusamlegt líf er Þórunni einnig hugleikið og um árið gaf hún út bókina Glútenfrítt líf og eina rafbók sem heitir Glútenfrí jól. Ásamt því er hún að skrifa bók núna sem heitir Mía fær lyfjabrunn. Bergrún Íris Sævarsdóttir teiknar myndir í þá bók.

Þess má geta að Þórunn hefur mikinn áhuga á ljósmyndun og elskar að eigin sögn að hlusta á fólk segja frá því sem það hefur upplifað og hvað það gerir til að ná lengra í lífinu.

Þar til netfangið sport@hafnfirdingur fer í gagnið, er hægt að senda íþróttatengdar ábendingar beint til Þórunnar Evu í netfangið thorunnevat@gmail.com.

Við þökkum Benedikt Grétarssyni fyrir verulega góða samvinnu og hans mikilvæga þátt í umfjöllun um íþróttir.