Laugardaginn 1. júní kl. 15 verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Hafnarborg, annars vegar sýningin Tímahvörf – sýn átta samtímaljósmyndara á Hafnarfjörð, í sýningarstjórn Kirsten Simonsen, og hins vegar sýningin comme ça louise?, eftir Guðnýju Rósu Ingimarsdóttur.

Á sýningunni Tímahvörfum sýna átta samtímaljósmyndarar okkur hvað fangaði athygli þeirra, þegar þeir mynduðu umhverfi Hafnarfjarðar á árunum 2006 til 2019. Þar ferðast þeir frá innstu kimum bæjarins allt út á jaðar hans og beina sjónum sínum að því sem fellur jafnan í skuggann. Þá stöndum við frammi fyrir mynd sem samrýmist kannski ekki alveg hugmyndum okkar um litla bæinn sem kúrir við höfnina og hefur oft verið sýndur í heldur rómantísku ljósi af listmálurum síðustu aldar. Hér fáum við tækifæri til að hugsa um það hvert við stefnum og hvaða áhrif við höfum á nærumhverfi okkar, er bærinn stækkar og teygir úr sér í allar áttir. Varpa verkin þannig ljósi á bæ á tímahvörfum og gefa innsýn í hið nýja, flókna bæjarfélag sem er að myndast – okkar náttúrulega umhverfi árið 2019.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Daniel ReuterMarino Thorlacius,Pamela PerezPétur ThomsenSpessiStaś ZawadaStuart Richardson og Svala Ragnars. Sýningarstjóri er Kirsten Simonsen.

Á sýningu Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur, comme ça louise?, má sjá verk sem byggjast á upptöku af stúlku sem les upp úr þýðingu á ljóði Steins Steinarrs, Tímanum og vatninu. Stúlkan, sem er íslensk, skilur ekki merkingu ensku orðanna en þó skilar kjarni merkingarinnar sér til þess sem leggur við hlustir. Bókstafleg merking hljóðanna skiptir ekki öllu máli, þar sem við eigum í samskiptum okkar á milli – samskiptum sem kunna að vera knöpp en áköf – er öldur hafsins gjálfra í takt við tímann. Hér veltur allt á þeim tengingum sem við sjálf myndum.

Guðný Rósa Ingimarsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1969. Hún stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í La Cambre í Brussel og HISK í Antwerpen í Belgíu. Guðný Rósa býr og starfar í Brussel.

Sjá nánar um sýningarnar hér og hér.