Fyrr í vetur var ég beðin um að flytja ræðu í nýársmessu í Hafnarfjarðarkirkju 1. janúar 2020 og sló til, enda þótti mér vænt um bónina. Fyrir 16 árum síðan ætlaði ég að verða prestur. Að standa í þessum sporum verður líklega það sem ég kem næst slíku hlutverki.
Á gamlárskvöld 2008 var ég stödd, ásamt fjölskyldu minni, við gluggann í borðstofunni á 3. hæð við Brekkuás hér í bæ og horfði á stórkostlegt útsýnið yfir stóran hluta Hafnarfjarðar og reyndar miklu lengra. Við vorum nýbúin að fá afhenta lykla að íbúðinni og vorum á leið að flytja inn 2. janúar frá Grafarvogi. Við vildum prófa að upplifa þetta kvöld á þessum stað. Dætur mínar voru á 1. og 6. aldursári, önnur á leið í leikskólann Stekkjarás og hin í Áslandsskóla næsta haust. Sjálf var ég í háskólanámi og eftirvæntingin fyrir nýju heimili í nýjum bæ mikil.
Á þessum tímamótum hefði engan grunað, og allra síst mig, að 10 árum síðar myndi ég reka bæjarmiðil í Hafnarfirði, sem ég hef nú gert í eitt ár. Það er mjög auðvelt að þykja vænt um Hafnarfjörð og Hafnfirðinga – og sjálf lít ég á mig sem Hafnfirðing, þótt ég hafi lengst af verið alin upp í Njarðvík og búið mjög víða á Höfuðborgarsvæðinu. Stærsta ástæðan fyrir því að ég lít á mig sem Hafnfirðing er að mér finnst ég loksins komin heim. Hér er nefnilega vel tekið á móti „tjónuðum“ nýbúum eins og mér og hér er frjór jarðvegur til að vaxa og dafna í.
Mér finnst Hafnfirðingar mjög stolt og gott fólk sem ég ber mikla virðingu fyrir. Þeim er verulega annt um bæinn, sögu hans, byggingarnar og upplöndin. Hér hefur viturt og viðsýnt fólk verið boðið og búið að fræða blaðamanninn mig og hjálpa mér við að setja mig inn í ýmislegt, þótt ég geri mér grein fyrir að ég á afar margt eftir ólært. Það er af mörgu að taka í 30.000 manna bæ á 143 ferkílómetra svæði. En í því felast einnig mörg tækifæri í góðri samvinnu við bæjarbúa.
Frá því að ég hóf að fjalla um bæinn og íbúana í bæjarblaðinu fyrir 3 árum hef ég oft verið beðin um að tala fyrir framan fólk eins og hér, við mjög ólík tækifæri. Mér þykir afar vænt um það og á auðvelt með að tala frá hjartanu.
Haft er eftir góðum manni að nánd opinberi hjartað og innsæið. Í aðstæðum eins og núna finn ég fyrir hlýrri nánd, þótt ég þekki ekki alla hér og innsæið segir mér að mér sé óhætt, því aðstæðurnar eru þannig. Eina sem ég hef stjórn á er ég sjálf og það sem ég deili með ykkur. Þetta kallast æðruleysi og því fylgir frelsi að láta ekki stjórnast ekki af ímynduðu áliti annarra.
Já, það er nefnilega langoftast ímyndað og margur mannauður fer til spillis og margar hugmyndir verða ekki að veruleika vegna þess að fólk þorir ekki að taka mikilvæg skref, skrifa mikilvæga grein eða segja eitthvað upphátt af ótta við álit annarra og gagnrýni.
Ef ég hugsaði, sem eigandi bæjarblaðs; Hvað vil ég upp á dekk, nýi Hafnfirðingurinn, sem þekkir bæinn ekki eins vel og flestir? Hvað hef ég fram að færa? Þá yrði mér lítið úr verki af áhyggjum, kvíða og minnimáttarkennd. Ég verð bara að gera mitt besta og standa og falla með því.
Við megum og eigum nefnilega öll að taka pláss því við höfum öll mikilvæga rödd og getum öll haft góð áhrif á samfélagið. Hvert á okkar hátt. Það veitir ekki af í nútímasamfélagi þar sem hávært áreiti er mikið og margir vilja stjórna eða hafa áhrif á hugsanir okkar og viðhorf. Þá gleymum við oft að hlusta á innsæið; undirvitundina, litlu hvíslandi röddina sem veit best og man allt, því hún er þekking okkar og reynsla. Háværustu raddirnar í umhverfinu hafa ekkert endilega réttast fyrri sér.
Við þurfum heldur ekkert alltaf að bregðast við öllu mögulegu. Við megum hugsa okkur um, taka okkur tíma, kynna okkur betur, vega og meta. Sérstaklega ef við fáum ekki góða tilfinningu fyrir einhverju. Jafnaðargeð er mikilvægur eiginleiki.
Og þá kem ég aftur inn á æðruleysið. Hverju ber okkur í raun að bregðast við? Hvað er okkar mál og hvað bara alls ekki? Er verið að flækja líf okkar að óþörfu eða setja okkur í aðstöðu sem gerir okkur ekki gott?
Þegar ég er kominn í eitthvað af meðvirkniköstum mínum og forgangsröðin í lífinu er ekki góð, þá rifja ég upp orð markþjálfans míns: „Hvað gerir þetta fyrir þig?“ Það er auðvelt að ganga harkalega á orkubirgðirnar, sem eru svo mikilvægar fyrir allt hitt í lífinu líka. Ekki bara vinnuna.
Einhvern tímann las ég að til þess að eiga farsælla líf og léttari lund væri gott að fækka skoðunum og prinsippum. Ég prófaði þetta og það virkar bara mjög vel!
Það sem hefur þó hjálpað mér mest við að sleppa þeim spottum sem ekki tilheyra mér er bæn sem ég lærði fyrir 15 árum. Hún er mikið notuð í fjölbreyttri sporavinnu og heiðarleikaprógrömmum, þótt hún eigi í raun við okkur öll – allt lífið. Mig langar að biðja ykkur, sem kærið ykkur um, um að segja hana upphátt með mér.
„Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.“
Það hefur líklega aldrei verið jafn mikilvægt og nú fyrir okkur að fara vel með okkur. Á tímum kulnunar, aukins þunglyndis, áreitis samfélagsmiðla og misgáfulegrar gagnrýni í kommentakerfum fjölmiðla, þurfum við oft að hafa okkur öll við að bæta okkar eigið sjálfstal.
Við erum langoftast að gera okkar allra besta – og rúmlega það. Við þurfum að vera mildari við okkur og gefa okkur meiri tíma til að njóta samveru ein með sjálfum okkur eða með fólkinu sem okkur þykir vænt um.
Eitt sinn óskaði ég eftir að taka viðtal við eina hörkuduglega konu hér í bæ, sem er verkefnastjóri á mikilvægum vinnustað, og lagði til tiltekinn stað og stund. Hún svaraði: „Aaah nei því miður. Þá verð ég með fjölskyldunni minni.“ Hún setti mörk og mér fannst það til svo mikillar fyrirmyndar. Fjölskyldusamveran var í dagatalinu.
Mörk eru nefnilega eitt mikilvægasta verkfærið í heilbrigðum samskiptum. Og það er jafn mikilvægt að setja öðrum mörk og virða mörk annarra. Það þarf ákveðni og festu til að setja mörk og það þarf tillitssemi til að virða þau. Mörk eru persónuleg og aðrir þurfa ekki alltaf að skilja þau. Við þurfum heldur ekki að útskýra okkur eða afsaka. Þetta er okkar líf. Dag einn í senn – eitt andartak í einu.
Ég hugsaði til þess um daginn þegar ég heyrði lag í útvarpinu að það væru liðin 12 ár síðan það var spilað sem mest. Og mér fannst tíminn hafa liðið ógnvænlega hratt. Sama dag tók ég viðtal fyrir vefsjónvarpsinnlag um Félag eldri borgara í Hafnarfirði. Í viðtalinu nefndi formaðurinn Vala að allir væru velkomnir í félagið frá 60 ára aldri. Það eru 12 ár í það hjá mér! Ég tek fram að ég hlakka mikið til því þetta er verulega gott félag.
Já tíminn líður sannarlega hratt. Og það skiptir máli að við nýtum hann vel, förum vel með okkur og verum góðar fyrirmyndir.
Eða eins og Páll Óskar söng: „Trúa, treysta, bara á það besta.“
Mynd af Olgu Björt: Óli Már .
Mynd af Hafnarfjarðarkirkju: Olga Björt.