Um leið og ég óska öllum gleðilegs árs, vil ég þakka fyrir góð samskipti og samvinnu á árinu sem nú er að líða og hlakka til áframhaldandi samstarfs á nýju ári.
Ég hef nú setið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og hef gegnt embætti formanns bæjarráðs í tæp 4 ár. Það eru forréttindi og ég er fullur þakklætis fyrir það tækifæri að starfa fyrir og í umboði bæjarbúa.
Sterkari saman
Nú fer yfirstandandi kjörtímabili senn að ljúka og við göngum til sveitarstjórnarkosninga þann 14. maí næstkomandi. Þegar litið er yfir farinn veg getum við svo sannarlega sagt: „Kjörtímabilið hefur gengið vel og við höfum látið verkin tala.“ En kjörtímabilið hefur líka tekið á og við höfum þurft að kljást við ólgusjó heimsfaraldurs sem haft hefur áhrif á okkar góða samfélag líkt og á samfélög um heim allan.
Við hlökkum til hitta kjósendur okkar og kynna hvað áorkast hefur á liðnum árum og með hvaða hætti við hyggjumst halda áfram að byggja upp enn betra og öflugra samfélag fyrir alla hér í Hafnarfirði. Við kvíðum því ekki, heldur þvert á móti hlökkum við til að eiga í góðu samtali og samstarfi við íbúa, hér eftir sem hingað til. Þetta gerum við saman líkt og við höfum gert á liðnum árum.
Fjölskyldur í forgang, íþróttir og blómstrandi menning í Hafnarfirði
Hafnarfjarðarbær hefur stigið ölduna í ólgusjó síðustu tveggja ára. Við höfum þurft að bregðast við og aðlaga okkur að aðstæðum hverju sinni. Þrátt fyrir það gengur reksturinn vel og fjárhagurinn er traustur. Markmið okkar hefur verið að sýna ábyrgð í rekstri og létta undir með fjölskyldufólki í Hafnarfirði. Það hefur tekist.
Við Hafnfirðingar vorum líka glöð og stolt af árangri íþróttafólksins okkar sem hefur staðið sig afburða vel á árinu og öllum félögum okkar og afreksfólki. Allt íþróttastarf hefur átt undir högg að sækja, en aðlögunarhæfni félaganna okkar hér í bænum, þjálfara og stjórnenda þeirra hefur verið til mikillar fyrirmyndar. Fyrir það ber að þakka. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur, var kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar og Róbert Ísak Jónsson, sundmaður, var kjörinn íþróttakarl Hafnarfjarðar. Við erum stolt af okkar öfluga íþróttafólki á hverjum degi og það verður gaman að fylgjast með þeim áfram á nýju ári.
Við erum hreykin og glöð með okkar öfluga menningarstarf sem við munum halda áfram að styðja vel við, enda öll menningarstarfsemi oft upplifað betri tíð en verið hefur í gegnum faraldurinn. Fjölmargir hátíðar- og menningarviðburðir hafa fest sig í sessi hér í Hafnarfirði og skapa góðan bæjarbrag. Von mín er sú að við getum haldið alla þessa góðu viðburði án takmarkanna með hækkandi sól. Þar má nefna Bjarta daga og Heima-hátíðina, Víkingahátíðina og Hjarta Hafnarfjarðar. Í þessu er mikill samfélagslegur auður sem við þurfum að sammælast um að hlúa að, styrkja og treysta enn frekar.
Gleðilegt ár
Ég hef trú á því að árið 2022 verði gott fyrir okkur öll og við bæði getum og skulum hafa góðar væntingar til þess. Þökkum og njótum hverrar stundar með því fólki sem stendur okkur næst. Ég sendi mínar bestu nýárskveðjur til þín og þinna með von um að nýtt ár muni færa okkur öllum gleði og gæfu við leik og störf.
Ágúst Bjarni Garðarsson
formaður bæjarráðs
þingmaður Suðvesturkjördæmis