Glæný vefsíða, Útför í kirkju – andlát, sorg og styrkur, var sett í loftið á degi allraheilagramessu sl. sunnudag. Sá dagur er helgaður minningu látinna ástvina. Það er Kjalarnesprófastsdæmi sem stendur að síðunni, en hún hefur verið í vinnslu undanfarið ár.
Á vefsíðunni eru allar helstu upplýsingar um þjónustu kirkjunnar við aðstandendur, þegar andlát á sér stað, s.s. val á sálmum og tónlist, hvernig útför og kistulagning fara fram, um sorg og missi, sorgarhópa, sálgæslu og hinstu óskir. Einnig er sérstaklega farið inn á leiðir til útskýra dauða fyrir börnum og virða óskir þeirra sem þátttakendur í sorgarferlinu.
Kjalarnesprófastsdæmi er stærst slíkra á landinu og sóknirnar sem tilheyra því eru þessar:
Ástjarnarkirkja, Bessastaðakirkja, Brautarholtskirkja, Garðakirkja, Grindavíkurkirkja, Hafnarfjarðarkirkja, Hvalneskirkja, Innri-Njarðvíkurkirkja, Kálfatjarnarkirkja, Keflavíkurkirkja, Kirkjuvogskirkja, Lágafellskirkja, Reynivallakirkja, Útskálakirkja, Víðistaðakirkja og Ytri-Njarðvíkurkirkja.
Á vefsíðunni kemur fram að þjónusta kirkjunnar við andlát snúist um samfylgd með fólki í gegnum sorg og áföll í næði og ró. Auðvelt sé að hafa samband við presta og starfsfólk kirkjunnar sem eru ávallt reiðubúin að eiga samtal eða veita aðra aðstoð.