Leikskólar Hafnarfjarðar starfa eftir nýjum næringarsáttmála og elda eftir samræmdum matseðlum. Vinna við verkefnið hefur staðið yfir um nokkurt skeið og hófst markviss innleiðing þess fyrir rétt um ári síðan. Afraksturinn byggir á mikilli greiningarvinnu, næringarútreikningum, samstarfi og samtali viðeigandi aðila ásamt mati nemenda og starfsmanna. Næringarsáttmálinn hefur nú formlega verið gefinn út.
Samræmdir matseðlar leikskóla Hafnarfjarðar byggja að á matseðlum Skólar ehf. sem hefur um ára bil þróað sína matseðla og tekið m.a. mið af mjög nákvæmum næringarútreikningum. Fyrirtækið Skólar ehf. rekur í dag fimm heilsuleikskóla á Íslandi og hefur tekið virkan þátt í þróun verkefnisins heilsueflandi leikskóli í samvinnu við Embætti landlæknis. Ólöf Kristín Sívertsen hefur starfað sem verkefnastjóri næringarsáttmálans hjá Hafnarfjarðarbæ og unnið að innleiðingu hans og samræmingu matseðla með leikskólastjórum og matráðum leikskólanna. Hafnarfjarðarbær lítur á það sem eitt af hlutverkum sínum að tryggja heilsusamlega næringu í sínum skólum. Þetta breytta fyrirkomulag stuðlar ekki eingöngu að hollu mataræði og heilbrigðum matarvenjum heldur auðveldar fyrirkomulagið líka skipulag og hjálpar til við að draga úr matarsóun og þar með verndun á umhverfinu, eins og fram kemur í sáttmálanum sjálfum.
Í næringarsáttmála leikskóla Hafnarfjarðar kemur m.a fram að holl og góð næring er öllum mikilvæg og þá ekki síst börnum sem eru að vaxa og þroskast og sýna rannsóknir að mataræði barna hefur áhrif á vellíðan þeirra og heilsu. Leikskólar Hafnarfjarðar eru mikilvægir þátttakendur í uppbyggingu heilsueflandi samfélags og vill Hafnarfjarðarbær með þessu mikilvæga verkefni fylgja eftir opinberum ráðleggingum um mataræði og bjóða börnum skólanna upp á fjölbreytt hráefni sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi.
Mynd 1: Hluti af þeim hópi hjá Hafnarfjarðarbæ sem komu að verkefninu ásamt bæjarstjóra, Rósu Guðbjartsdóttur
Mynd 2: Nýr næringarsáttmáli leikskóla Hafnarfjarðar