Vegfarendur í Valla- og Helluhverfi hafa undanfarna mánuði séð hvert iðnaðar- og þjónustuhúsnæðið rísa af öðru, enda er Hafnarfjarðarbær orðinn afar vinsæll meðal fyrirtækja og rekstraraðila. Við Selhellu er Múrbúðin búin að koma sér fyrir í alfaraleið. Það styttist í opnun á morgun en Fjarðarpósturinn fékk að kíkja við og ná spjalli við Stefán Óskar Gíslason verslunarstjóra.

Hátt er til lofts og vítt til veggja í glæsilegu og nútímalegu húsnæði Múrbúðarinnar og á þessum laugardegi voru starfsmenn að raða í hillur og heilsuðu blaðamanni brosandi. Fljótlega sjást svo Kári Steinar Lúthersson framkvæmdastjóri og Stefán Óskar Gíslason, einnig á fullu við undirbúning. Þeir eru að vonum mjög spenntir og gaman er að geta þess að á meðan Fjarðarpósturinn var á staðnum gekk inn spenntur vegfarandi sem vonaði að búið væri að opna.

Múrbúðin eins og hún sést frá Ásbraut.

Verslunin að framanverðu.

 Þjónusta við Hafnfirðinga í heimabyggð
„Við munum opna núna á föstudaginn, 14. júní og erum óðum að koma öllu fyrir áður. Á þessum tíma árs fara einstaklingar og fyrirtæki á fullt við að ditta að umhverfi sínu; byggja breyta og bæta. Veðrið hefur leikið við okkur hér á SV-horninu að undaförnu, og það ýtir við fólki að vinna í garðinum, lagfæra húsin sín og mála. Margir Hafnfirðingar eru fastir viðskiptavinir hjá okkur í Múrbúðinni og því hlökkum við mikið til að geta loksins þjónustað Hafnfirðinga í heimabyggð,“ segir Stefán.

Afar fjölbreytt úrval.

Í stefnu Múrbúðarinnar kemur fram að þar eru seldar vörur á góðu verði fyrir alla, alltaf. „Sá árangur hefur náðst með hagkvæmum innkaupum, lítilli yfirbyggingu og lágri álagningu. Viðskiptavinir Múrbúðarinnar geta því gengið að gæðum og góðu verði sem vísu, allt árið um kring.“ Eins og nafnið gefur til kynna býður Múrbúðin upp á allar múrvörur, en einnig  málningarvörur og málningarverkfæri, gólfefni, flísar og parket, hreinlætistæki, festingavörur, áhöld og verkfæri og ýmsa grófvörur. „Úrvalið kemur fólki oft á óvart og það gengur hérna út með allt sem það þurfti á einum stað. Við hlökkum til að opna í Hafnarfirði og lofum að veita göflurum og öðrum Hafnfirðingum bestu mögulega þjónustu,“ segir Stefán að lokum.

Allt fyrir málningarvinnuna, lökkun og slíkt.

Útilegan, framkvæmdirnar, einstaklinga, fyrirtæki. Allt fyrir alla.

Ílát og geymslueiningar af öllum stærðum og gerðum.

Myndir/OBÞ
Þessi umfjöllun er kynning.