Gaflaraleikhúsið hóf sýningar aftur á hinni geysivinsælu fjölskyldusýningu Mömmu Klikk 9. Janúar. Við heyrðum í Björku Jakobsdóttur, leikstjóra og leikhússtýru. 

„Við þurftum að skella í lás á seinasta ári eins og önnur leikhús og það var sérlega grátlegt þar sem að við vorum með geysivinsæla sýningu. Síðan í mars höfum við beðið eftir að fá að hefja leik að nýju, segir Björk, en bætir við að nú geti þau farið af stað aftur og muni að sjálfsögðu fara eftir sóttvarnareglum. „Við erum með rúmgóðan sal og góð sæti og getum passað upp á fjarlægð á milli hópa. Eins getum við opnað stóra hurð út í port í hléi þannig að fólk getur farið út til að fá sér ferskt loft eða valið að halda kyrru fyrir í sætum sínum. Eins erum við með stórt anddyri með þrennum klósettum og sprittbrúsa á hverju borði.“

Það er svona gaman á æfingum hjá þeim Selmu, Sölku Sól og Björku. Mynd/OBÞ

Afmælissýningin Bíddu bara

Stefnt er að því að sýna út janúar og Björk hvetur þau sem eftir eiga að sjá þessa sýningu til að setja á sig leikhúsgrímuna og hlæja soldið með börnunum í janúar. „Svo er nú gaman að segja frá því að æfingar eru hafnar á afmælissýningu Gaflaraleikhússins sem varð 10 ára á síðasta ári. Leikritið heitir Bíddu bara og ég er handritshöfundur ein af leikkonum. Meðleikkonur eru stjörnunar og gleðipinnarnir Selma Björns og Salka Sól. Leikstjóri er síðan engin önnur en Ágústa Skúladóttir. Við Ágústa kynntumst fyrst þegar hún leikstýrði mér í einleiknum Sellófon. Hún er fyndnasti og faglegasti leikstjóri sem ég þekki.“ Um sé að ræða sannkallaðan gleðileik um heim mæðra frá fæðingu fyrsta barns og fram á grafarbakkann og Björk telur að hún geti lofað góðu kvöldi með vinkonunum. „Við allavega hlógum okkur máttlausar á fyrsta samlestri og hlökkum til að deila sögunum með ykkur. Svo verður að sjálfsögðu hellings tónlist líka. Maður er nú ekki með svona tónlistarbombur með sér nema að leyfa ykkur að heyra þær syngja. Þetta verða frumsamin lög eftir Sölku og Selmu í bland við þekka slagara. Þannig að afmælisleikárið er tileinkað klikkuðum yndislegum mæðrum sem að við öll elskum og ég hlakka óendanlega mikið til að geta farið að hlæja með áhorfendum eftir þetta Covid þunglyndi,“ segir Björk. 

Mynd/OBÞ