Öðru hverju gefst okkur tækifæri til að líta til baka og skoða hvað við höfum lært af lífinu. Margir gera slíkt í kjölfar tímabils þar sem mikið hefur mætt á þeim. Aðrir hugsa um atvik eða reynslu sem þeim þótti óyfirstíganleg en átta sig síðar á því hvað þau lærðu sem nýttist þeim vel í svipuðum aðstæðum síðar. Við fengum nokkra ágæta Hafnfirðinga til að deila með okkur hvaða lífslexíur þeir hafa mest lært af og leyfðum þeim að ráða algjörlega lengdinni og dýptinni.
Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður og hvunndagshetja:

- Þú breytir ekki því sem orðið er, en getur haft áhrif á hvað gerist næst. Þetta á við á svo margan hátt. Ef manni verður á mistök þá er aðalmálið að læra af þeim. Stundum þarf maður að gera sömu mistökin tvisvar til þrisvar til að vera viss. Þetta segi ég m.a. við foreldra þegar kemur að því að fást við krakka sem fara út af sporinu. Að gera mistök og læra af þeim er hluti af því að þroskast.
- Það eru í það minnsta 3 réttar hliðar á hverju máli; mín hlið, þín hlið og svo hin hliðin. Ég ætla ekkert dýpra í þetta en eftir að samfélagsmiðlar komu til sögunnar fóru að verða til margar rangar hliðar á mörgum málum.
- Þolinmæði þrautir vinnur allar. Þetta kemur mér ansi langt í því sem ég er að gera þessi árin.
- Ef þú ætlast til að aðrir geri hlutina, sýndu þá að þú gerir það líka. Þetta er svona yfirmanna/undirmanna, foreldri/barns atriði.
- Anda inn, anda út, anda inn, anda út, endurtakist eftir þörfum. Bráðnauðsynlegt.
Ingunn Lovísa Ragnarsdóttir, kennari í Öldutúnsskóla:

Ég er forréttindapía dauðans eins og ég kalla mig. Ég hef verið svo lánsöm að lífið hefur farið góðum höndum um mig.
Ég er langyngst í systkinahópnum og einkadóttir föður míns, hann átti mig seint og var ég algjört óskabarn. Hann bjó hins vegar við fötlun og hann kenndi mér margt um lífið sem ég hef reynt að tileinka mér.
Það fyrsta og langbesta er: „komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig“ og að allir eiga sinn tilverurétt, burt séð frá kyni, stétt eða stöðu.
Tinna Bessadóttir, eigandi Litlu Álfabúðarinnar í Hellisgerði:

- Horfa á jákvæðu hiliðarnar, það er alltaf jákvæð hlið, maður lærir af öllu sérstaklega þegar hlutirnir ganga ekki upp.
- Hlusta á og þekkja líkamann sinn, hvíld er lykillinn af öllu, stunda Yoga og hugleiða og gefa sér tíma til að hugsa inn á við.
- Vera samkvæm sjálfri mér og vinna að því að vera manneskja sem mér líkar við, ekki taka þátt í hlutum sem þú ert ekki sammála með. Þannig lærir maður að elska sjálfan sig.
- Forgangsraða, sumt skiptir ekki máli eins og veraldlegri hlutir. Njóta litlu hlutanna eins og td. skuttlið, uppáhalds tíminn minn sl. 15 ár er þegar ég keyri börnin mín á æfingar, þá eru þau neydd til að sitja með mér í bíl í amk 10 mín á dag og ræða um daginn sinn..
- Takast ekki á við of mikið í einu og biðja um og þyggja hjálp þegar þarf, ég þarf ekki alltaf að gera allt sjálf, ég er þó enn að læra það er mjög léleg í því.
Oddrún Ólafsdóttir, þroskaþjálfi, meindýraeyðir, Zumba kennari og með einkaþjálfararéttindi:

- Elska sjálfa mig – sjálfsást og sjálfselsku má ekki rugla saman og eru alls ekki sami hluturinn. Það er algerlega nauðsynlegt að kunna að elska sjálfan sig. Það gengur mis vel eftir dögum en er alveg ótrúlega mikilvægt að iðka.
- Læra að greina á milli hvað hugurinn vill og hvað hjartað vill. Það er yfirleitt betra fyrir sjálfið að fylgja hjartanu en stundum segir hugurinn að það sé ekki skynsamlegt, þá getur verið betra að hlusta á hvað hugurinn segir.
- Trúin fleytir okkur áfram – hvort sem það er trúin á manneskjuna, almættið, kerfið eða sjálfið.
- Bægja frá neikvæðum og meiðandi röddum. Bæði þessum í höfðinu og þessum í umhverfinu. Þær hvorki næra né gleðja.
- Vera staðföst – Fólk er ekkert alltaf sammála manni, en ef ég stend með mér og mínum skoðunum, þá líður mér pínu betur sjálfri. Á sama tíma er alveg sérstaklega mikilvægur eiginleiki að geta skipt um skoðun og hlusta á sjónarmið annarra. Að vera staðfastur má ekki vera hamlandi og snúast í þrjósku og stífni.
Guðmundur Sigurðsson, organisti í Hafnarfjarðarkirkju:

- Hver er sinnar gæfu smiður. Maður getur valið viðhorf og hugarfar til áskorana lífsins.
- Dagleg andleg og líkamleg heilsurækt eru lífsnauðsyn.
- Oft er betra að hlusta en að tala.
- Hver dagur er Guðs gjöf sem ber að þakka. Það þarf að nota hann vel því enginn veit hvað gerist á morgun.
- Þegar dyr lokast þá opnast gluggi. Lífið er kaflaskipt og hægt að sjá endalaus tækifæri í hverfulleika tilverunnar.
Hallur Guðmundsson, tónmenntakennari og tónlistarmaður:

Þegar að því kemur að finna fimm lífslexíur þá hefur lífið minnt mig á að hægt er að gera betur. Sumum kann að þykja þetta léttvægar lexíur en þær hafa skipt sköpum fyrir mig.
Vafasama leiki skal maður láta eiga sig
Sautján ára fór ég í skiptinám til Hollands, nánar tiltekið til Leeuwarden í Frieslandi. Ég ferðaðist aðeins með jafnöldrum mínum um landið og þar sem það er lítið þá fór ég nokkrum sinnum til Amsterdam þó ég byggi þar ekki. Á þessum tíma var ég alltaf með myndavél með mér sem ég fékk í fermingargjöf. Á göngugötu einni nálægt Dam torginu var maður að láta fólk leggja undir fjármuni (peninga eða eigur) til að giska hvar lítil hvít kúla lenti undir þremur eldspýtustokkum sem hann hreyfði um borð með talsverðum hraða. Ég fylgdist dágóða stund með þessu og sá alltaf hvar kúlan lenti og fylgdi henni. Menn komu og lögðu undir, og unnu eða töpuðu – allt mjög sannfærandi fyrir óreyndan unglingsstrák frá Íslandi. Ég taldi mig nú heldur betur öruggan um að vinna eitthvað og lagði myndavélina að veði. Ég horfði á kúluna og þegar ég valdi stokkinn þar sem ég taldi að hún væri þá var hún vitanlega ekki þar. Maðurinn tók myndavélina. En þá gerði ég það sem ég hefði líklega ekki átt að gera, ég reif af honum myndavélina og hljóp eins og fætur toguðu (þá þvengmjór og sprettharður). Vinir mínir sem voru með mér þarna forðuðu sér líka en tóku eftir því að þrír menn tóku á rás á eftir mér, alveg sjóðandi reiðir. Ég hljóp linnulaust niður á aðallestarstöð í Amsterdam og inn í lest sem var að fara – ég átti sem betur fer þriggja daga passsa þannig að ég þurfti ekki að bíða í miðasölu. Ég lak niður í sæti og hef aldrei verið jafn móður og másandi. Eftir þetta hef ég verið mjög ragur við veðmál og fjárhættuspil hvers konar. Einnig lærði ég það að ef maður lætur hafa sig að fífli við þessar aðstæður þá er betra að hverfa frá en að storka örlögunum eins og ég gerði. Ef ég hefði dottið eða ekki hlaupið svona hratt þá veit ég ekki hvar ég væri í dag.
Gagnrýndu eigin hugsun
Ég hef í gegnum tíðina þurft að tjá mig frekar hátt og snjallt um alls kyns málefni. Með tilkomu samfélagsmiðla (fyrst á IRC, síðan í bloggum og svo á Facebook) hef ég stundum rekist á stóran vegg. Ég hef sagt hluti sem ég sé eftir og get ekki svarað fyrir. Ég hef sagt hluti í reiðikasti sem ég beinlínis skammast mín fyrir. Ég hef samt ekki fengið á mig meiðyrðakærur eða slík ónot þó fólk hafi farið að líta á mig á stundum sem ómerkilegan pappír. Þetta hefur minnkað hjá mér, sem betur fer og nokkur tilvik urðu til þess að ég reyni nú að hugsa það sem ég skrifa áður en ég læt það flakka. Eitt mál varð til þess að ég fékk harkalega á baukinn. Það var mál sem tengist MeToo. Ég trúði geranda eins og nýju neti af því ég hafði aldrei heyrt neitt slæmt um hann. Ég skrifaði færslu á Facebook þar sem ég lýsti stuðningi við viðkomandi. Ég hefði betur kynnt mér málavöxtu aðeins betur. Ég fjarlægði færsluna og baðst afsökunar. Í kjölfarið kynnti ég mér þolendamálfflutning aðeins og komst að því að lítið brot þolenda kynferðisofbeldis segir frá. En þeir sem segja frá eru í allt of mörgum tilvikum hetjur sem hafa burðast með glæp í lengri tíma, sem á þeim var framinn. Ég fór að gagnrýna eigin hugsun sérstaklega mikið í kjölfar þessa. Svo hafa dætur mínar haldið mér kyrfilega við efnið þegar kemur að því að gagnrýna sjálfan sig. Ég er miðaldra og ólst upp við allt öðru vísi samfélag, samfélag sem hélt að það væri í lagi að tala niðrandi um aðra kynþætti, samfélag sem hélt það væri í lagi að karlmenn ættu tilkall til kvenna, samfélag þar sem þessir hlutir voru andskotakornið ekki í lagi.
Njóttu þess sem þú hefur af veraldlegum gæðum og upplifðu frekar eitthvað einstakt
Mig langar í nýtt hús, mig langar í fjóra nýja bassa sem kosta á bilinu 200.000 til 1.000.000, mig langar í þetta, mig langar í hitt. Ég hef hins vegar í seinni tíð tamið mér þá hugsun að krefjast einskis annars en að ég geti aflað mér þeirra hluta sem ég fæ mér, hvort sem er með staðgreiðslu eða lánum sem ég ræð við. Ég bý í góðri íbúð í Áslandinu, bassinn sem ég nota hvað mest keypti ég á 25.000 kall fyrir sex árum og hann sándar mjög vel. Græjurnar sem ég nota sánda mjög vel líka og kosta ekki augun úr og eyrun af. Alveg frá því að greiðsludreifingar hafa verið í boði á greiðslukortum þá hef ég séð of marga fara flatt á því að kaupa hluti sem kosta „bara“ svona mikið á mánuði en falla svo á því að vera að kaupa marga hluti sem kosta „bara“ svona mikið á mánuði. Við hjónin eigum hægindastóla sem eru 80 ára gamlir, borðstofuborð sem er líklega komið á níræðisaldurinn, sófaborð sem kostaði 1.500 kall í sænsku vöruhúsi í Garðabæ. Hlutir þurfa ekki endilega að kosta mikið, hlutir þurfa ekki endilega að heita eitthvað stórt og merkilegt svo lengi sem þeir virka vel og gera sitt gagn jafn lengi og jafnvel lengur en merkjavaran. Við hjónin teljum okkur hafa náð lífsfyllingu með þessu hugarfari og eigum þá kannski frekar fyrir helgarferð til útlanda eða getum leyft okkur að fara aðeins oftar í einhverja aðra upplifun þegar Covid sleppir í stað þess að þurfa að hafa sífelldar áhyggjur af því að komast ekki í gegnum mánuðinnl.
Ekki fresta verkum
Þegar ég byrjaði í menntaskóla 1986 var ég ekki nema meðal námsmaður. Ég tók einn vetur í MK og fór svo í skiptinám eins og áður kemur fram. Þegar ég kom heim fór ég í MH og endaði á því að falla úr þeim skóla eftir að hafa klúðrað sama íslenskuáfanganum þrisvar. Ég fór í iðnskólann og kláraði þar prentsmíði (grafíska miðlun) en þó með herkjum. Það fag byggir reyndar á því að vinna hratt, undir álagi og með efni frá fólki með gríðarlega frestunaráráttu. Hentar mé svo sem vel. Alltaf skilaði ég verkefnum á síðustu stundu en ég ruslaðist í gegnum sveinsprófið. Ég lét skólamenntun vera þar til ég varð 43 ára, þegar ég innritaði mig í Háskólagáttina á Bifröst. Þar tók sama baksið við, verkefnaskil á síðustu stundu. Þetta hefur alltaf orsakað það að ég sef minna, sef illa, borða óhollari mat og er yfirleitt mjög skapstyggur við mína nánustu. Ég hélt svo áfram á Bifröst og 47 ára lauk ég BA gráðu í Miðlun og almannatengslum (sem er í raun samskipta- og krísustjórnun). BA ritgerðin mín er svo sem ágæt til síns brúks en síðustu vikuna við skrif hennar svaf ég afskaplega lítið. Á síðasta sólarhringnum skrifaði ég lokaorðin þrisvar, breytti heimildaskránni fram og til baka. Ritgerðinni skilaði ég á síðustu mínútu skilafrests. Þetta hefur í öllum tilvikum orsakað mikla langþreytu og kvíðaástand en alltaf renni ég mér í þetta hjólfar. Í dag starfa ég sem tónmenntakennari í skóla í Reykjavík og er í námi við menntavísindasvið HÍ að læra tónmenntakennslu 51 árs gamall. Verkefnaskil á síðustu stundu, stundum kennt eftir eyranu því það „fórst fyrir“ að skipuleggja kennsluna. Þessa dagana er ég að reyna að taka mig á í þessu en það gengur mis vel. Ætli ég verði ekki kominn á rétt ról með það þegar ég kemst á ellilífeyri. Þá verður nægur tími til skipulagningar.
Þú ræður hverjir eru vinir þínir
„Þið eigið eftir að ná svo vel saman“ eða „Heyrðu, þessi passar svo vel með okkur og nú er hann vinur þinn“. Þetta eru kannski ekki beint setningar sem fólk segir en algerlega inntak þess þegar verið að þröngva upp á mann „vini“. Svo eru það þeir sem bara ákveða að þeir ætli að vera vinir manns. Kannski ágætasta fólk en það er ekki gott upphaf á vináttu að byrja með látum og gera ráð fyrir því að um vinskap sé að ræða strax frá fyrstu mínutu ef það er ekki sameiginlegur skilningur beggja. Bestu vinum mínum hef ég kynnst hægt og rólega. Þeir vinir eru ekki með yfirgang og tilætlunarsemi heldur eru málin tekin fyrir í bróðerni og sameingingu. Góðir vinir geta bent manni á misbresti og annað neikvætt án þess að upp á vinskap slettist alvarlega a.m.k. Ég hef átt vini sem gagnrýndu mig á ósanngjarnan hátt og sá vinskapur fjaraði út. Ég hef líka lent í því að ákveða vinskap sem engin innstæða var fyrir á hinum endanum.
