Hafnfirðingurinn Anton Sveinn McKee er sundmaður ársins, þriðja árið í röð og íþróttakarl Hafnarfjarðar 2020. Hann náði frábærum árangri á nýliðnu ári og bætti m.a. Íslands- og Norðurlandamet í 100m bringusundi. Anton Sveinn keppti í fyrsta skipti á ISL-mótaröðinni með liði sínu Toronto Titans og er sem stendur eini Íslendingurinn sem tryggt hefur sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum sem fyrirhugaðir eru í Japan í sumar. Faðir Antons, Róbert Ólafur McKee, lést í desember en þeir feðgar voru mjög nánir. Róbert studdi dyggilega við bakið á Antoni og var afar stoltur af árangri hans. Hafnfirðingur fékk Anton Svein í spjall um ferilinn og framtíðarplönin.

Það sem stendur upp úr á árinu 2020 er að hafa í raun getað tekið allt árið sem alvöru atvinnumaður og geta helgað allan minn metnað sundinu. Hingað til hefur alltaf eitthvað annað þurft að vera með til þess að geta æft sundið, s.s. skóli eða vinna. Árangurinn fylgdi svo þessu og kirsuberið á toppnum voru svo tímarnir sem ég náði og staðan á heimslistanum,“ segir Anton Sveinn aðspurður og bætir svo við að þetta hafi gefið honum mest sjálfstraust inn í nýtt ár og að hafa farið á sundmótaröðina í lok 2020 eins vel undirbúinn og raun bar vitni. Það muni hvetja hann til að halda ótrauður áfram. 

Anton Sveinn, þegar hann tók við viðurkenningunni Íþróttakarl Hafnarfjarðar, 2. árið í röð. Mynd/OBÞ

Ánægjulegt að vera hluti af heild

Stemningin á ISL-mótaröðinni (e. International Swimming League, stofnað 2019) er töluvert frábrugðin því sem íslenskt sundfólk er vant, því þá er keppt í liði með einstaklingum af mörgum þjóðernum. Anton Sveinn segir það hafa verið skemmtilega reynslu. „Það var mjög ánægjulegt að kynnast öllu þessu nýja fólki, koma saman og mynda stóra heild. Hópar frá Íslandi eru t.a.m. yfirleitt ekki stórir á stórmótum og að vera hluti af stórum hópi þar sem allir eru með sama markmið að standa sig fyrir liðið er mjög skemmtilegt tilbreyting og ég hlakka mikið til að mega halda áfram því það er alltaf stærsti heiðurinn að fá að keppa fyrir Íslands hönd; koma litlu þjóðinni okkar á framfæri á alþjóðasviðinu og sýna hvað við erum í raun stór.“ 

Anton Sveinn í 200 m bringusundi. Myns/Sundsamband Íslands

Aukar kröfur til Ólympíufara

Mögulega verður íslenski Ólympíu-hópurinn einn fámennasti frá upphafi sem gengur inn á leikvanginn I Tokýó í sumar og jafnvel gæti Anton Sveinn orðið sjálfur fánaberinn. Spurður um hvort hann sé þokkalega bjartsýnn á að fleiri íslenskir íþróttamenn bætist í hópinn segir hann svo sannarlega vera. „Sem betur fer eru margir íþróttamenn að stefna á að komast á Ólympíuleikana með mér þannig og helsta útskýringin á að færri eru en vanalega getur legið í því að kröfurnar eru orðnar mun meiri. Ég hefði t.a.m. ekki komist á Ólympíuleikana í London 2012 á tímanum sem ég synti þá. Það þarf að leggja miklu meira á sig og vera komin lengra á sínum ferli og það hefur ekki alveg haldist í hendur við með bakland á Íslandi, en vonandi breytist það á næstu árum. Það þarf að gera afreksfólki kleift að setja sér það markmið að komast á Ólympíuleikana, helga sig íþróttinni algjörlega og vita að það er bakland sem styður við allan tímann. Annars sjáum við fram á sífellt færri keppendur fyrir hönd Íslands,“ segir Anton Sveinn, en markmið hans fyrir ÓL eru að ná að vera fyrstur til að synda á 2:05. „Það er líka krefjandi að ná tímanum 2:06 en ég mun setja allan minn eldmóð í það næstu mánuði. Sömuleiðis 100m bringu að fara undir 00:59 þar.“ 

Fjöldi sundlauga og góðir þjálfarar

Spurður segir Anton Sveinn að ástæða fyrir miklum fjölda íslensks afreksfólks í sundi telur hann frábærar aðstöðu og fjölda sundlauga hafa mest með það að gera. „Einnig eru þjálfararnir góðir, íslenskir og erlendir með þekkingu og reynslu sem þeir miðla til okkar til að ná stórum markmiðum á erlendri grundu. Margt sundfólk hefur líka getað tekið milliskref að í háskóla í Bandaríkjunum og framlengt ferilinn og haldið áfram að þróast eftir framhaldsskóla og orðið enn öflugri. Þótt ég sé orðinn 27 ára þá er ég rétt núna fyrst að toppa á mínum ferli og komast á þann stað að láta finna fyrir mér. Ég held að ég eigi eftir mjög mörg ár ef ég held líkamanum í góðu formi og set mér markmið. Ég syndi líka fyrir pabba núna. Eins og staðan er núna get ég gert bæði og held vonandi áfram að taka skref fram á við. Það verður a.m.k. farið til Parísar 2024 og til LA 2028,“ segir Anton Sveinn að lokum. 

Mynd aðsend: Anton Sveinn í Christiansburg í Virginíu í Bandaríkjunum, þar sem hann býr nú og æfri af kappi.