Í nýárs-hlaðvarpsþætti Plássins segir Ingvar Jónsson, eigandi Profectus, frá því að snemma morguns daginn eftir að hann skilaði af sér síðustu próförk nýjustu bókar hans, Sigraðu sjálfan þig – aftur og aftur, var hann kallaður út á Reykjavíkurflugvöll til að fara með ráðherraþotunni í lifrarskipti. Í tæp 30 ár hafði Ingvar glímt við krónískan lifrarsjúkdóm og við tók kapphlaup við tímann að fá nýja lifur. Ingvar fékk margar góðar hugmyndir á sjúkrahúsinu í súreallísku hugarárstandi og tók þær jafn óðum upp á símann. Ingvar segir einnig hvað skiptir mestu máli í fari góðs markþjálfa, hversu lúmsk meðvirkni er og hvernig mikilvægt er að allir endurskoði sjálfsmynd sína og að „to do-listar“ eru í raun pyntingartæki.
Ingvar ásamt ástinni sinni og kletti, Sigrúnu Eiríksdóttir, sem fór með honum í lifrarskiptin. Myndin er tekin rétt áður en þau stigu upp í flugvélina í lok október síðastliðinn. Mynd/Ingvar
Profectus hefur útskrifað 500 nemendur á 5 árum í 9 löndum. Hér eru nokkrir nemendur sem útskrifuðust í fyrra. Starfsfólk Profectus, 10 manns, hefur samið allt námsefni sjálf og gefið út fjórar bækur. Mynd/Profectus 2021.
Myndmál er mikið notað í markþjálfun hjá Profectus og Ingvar segir það skila mun betri árangri.
Nýjasta bók Ingvars. Á forsíðunni er peð með skugga drottningar, enda kemst hún hvert sem er á taflborði.
Ingvar var um tíma aðalsöngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Papar. Hann náði að halda upp á fimmtugsafmæli sitt í Bæjarbíói áður en covid skall á. Þar söng hann og spilaði mörg uppáhaldslög sín, en einnig voru nokkrir vina hans gestasöngvarar.
Lagið í upphafi og lok viðtalsins er einmitt með Pöpunum frá því þegar Ingvar var liðsmaður þeirra. Það heitir Dagurinn kemur og er af plötunni Hláturinn lengi lífið, frá árinu 1998. Hér er hlekkur á plötuna á Spotify.