Athafnamaðurinn og Hafnfirðingurinn Hermann Fannar Valgarðsson hefði orðið 40 ára laugardaginn 22. febrúar næstkomandi. Af því tilefni verða haldnir styrktar- og minningartónleikar í Bæjarbíói. Margir af fremstu tónlistarmönnum landsins munu koma fram á tónleikunum; JóiPé x Króli, GDRN, Súrefni, Elísabet Ormslev, Jón Jónsson, Friðrik Dór Jónsson, Snorri Helgason, Saga Garðarsdóttir, Sigríður Thorlacíus, Sigurður Guðmundsson og Per:Segulsvið. Allur ágóði af tónleikunum rennur til Sorgarmiðstöðvar – þjónustumiðstöðvar fyrir syrgjendur og aðstandendur.

Hemmi og Fannar Logi Þór á FH leik. Mynd/Sara

Hermann Fannar, eða Hemmi eins og hann var alltaf kallaður, féll frá 9. nóvember 2011, aðeins 31 árs að aldri. Síðan þá hefur hinn alþjóðlegi LUV dagur verið haldinn á fæðingardegi hans.  

Hemmi lét eftir sig eiginkonu, Söru Óskarsdóttur og tvö börn, Loga Þór og Matthildi Rúnu. Þau eru 12 og 8 ára í dag, en Logi Þór var 4 ára þegar Hemmi Lést og Sara var gengin 3 mánuði með Matthildi Rúnu. Í samtali við Hafnfirðing segir Sara að Hemmi hafi komið með henni í 3ja mánaða skoðunina og það hafi verið afar dýrmætt. 

Sara og Hemmi með Loga Þór. Mynd/Sara

Vinamargur og hjartahlýr

Hemmi var vinamargur og átti viðburðaríka ævi. Hann starfaði lengi sem útvarpsmaður, stofnaði og rak veitingastaðinn Hemma og Valda, var einn stofnenda ferðaþjónustufyrirtækisins Backpackers, einn eigenda Maclands, einn eigenda kaffihússins Tíu dropa og einn stofnenda og eigenda vefstofunnar Skapalóns svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Hann var þó fyrst og fremst einstaklega glaðvær og hjartahlýr maður og lýsti upp tilveru allra sem á vegi hans urðu. Hann endaði netsamskipti yfirleitt á kveðjunni LUV og þannig er nafnið á minningardegi hans tilkomið. Tilgangur með deginum er að minna á mikilvægi kærleikans.

Systkinin Matthildur Rúna og Logi Þór. Sara var gengin 3 mánuði með Matthildi Rúnu þegar Hemmi lést. Mynd/Sara

Húsið opnar kl. 15:00 og tónleikarnir hefjast kl. 15:30.

Miðasala fer fram á tix.is