Fjöldi skemmdarverka hafa átt sér stað víða í bænum í kringum áramót og í janúar. Við tókum þetta saman, samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ, í þeirri von um að foreldrar brýni fyrir börnum sínum á ýmsum aldri að svona iðja getur verið stórhættuleg og kostnaður við viðgerðir mikill.

Þótt talað sé um skemmdir á tunnum, þýðir það einfaldlega að þær eru ónýtar. Mynd/OBÞ

Björn Bögeskov Hilmarsson, forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Hafnarfjarðarbæjar, segir í raun mildi að enginn hafi stórslasaði sig í skemmdarfýsninni sem hefur verið óvenju áberandi á mörgum stöðum í bænum að undanförnu. „Það gleymist oft að það varðar við lög að skemma eignir annarra og það á líka við um sameiginlegar eignir bæjarfélagsins okkar. Það fjármagn sem Hafnarfjarðarbær þarf að leggja til sökum skemmdarverka eins og þessara væri sannarlega betur varið í einhverja betri og skemmtilegri málaflokka, eins og t.d. til kaupa á leiktækjum á opna leikvelli eða eitthvað sem skiptir okkur máli og er til að bæta okkar samfélag en ekki að letja það og skemma.“

Svæðið við grillhúsið á Víðistaðatúni. Þar voru tveir stórir ruslakassar skemmdir og ein stauratunna einnig á svæðinu. Mynd/OBÞ
Þegar þessi mynd var tekin var búið að hreinsa það mesta og fjarlægja ónýtu ruslatunnurnar, en aðkoman var hræðileg þegar fyrstu vegfarendur komu að. Mynd/OBÞ

Milljónir á hvert skemmdarverk

Björn vill taka fram að þó að á listanum í gráa kassanum hér fyrir neðan standi að hlutir séu skemmdir, þá eru þeir í raun ónýtir og verður að skipta út. „Áætlaður kostnaður við að kaupa ný ílát er um 1,6 – 1,7 milljónir króna og síðan bætist við vinna við hreinsun og förgun. Ofan á það bætist við vinna við að sækja ný ílát, festa þau niður með jarðfestingu og staurafestingum og líklegt að kostnaðurinn við það sé allavega í kringum 150 þúsund, þannig að heildarkostnaður við lagfæringar fer langt í 2 milljónir að meðaltali fyrir hvert skemmdarverk.“

Einnig vilji gleymast sú hætta sem í raun skapist við þessi skemmdarverk og ótrúleg mildi í einhverjum tilfella að ekki hafi orðið slys á fólki og/eða bifreiðum eða öðrum eignum. „Við vitum ekki hverjir gerðu þetta og á hvaða aldri. Ég vil bara gjarnan að foreldrar og/eða forráðamenn barna og unglinga ræði við börnin sín um að það hversu hættuleg þessi iðja er og fyrir afleiðingum af eignaspjöllum. Vonandi hugsa þau sig tvisvar um í framhaldinu. Þetta getur t.d. líka haft slæm áhrif á ferilskrána þeirra,“ segir Björn vongóður um betri umgengni.  

Hvað fær fólk til að kveikja í fatagámum? Mynd/OBÞ

Í almennum hegningarlögum er skýrt kveðið á um bæði skilgreiningu á eignaspjöllum og refsiviðurlög við þeim. Í 257. gr. segir orðrétt: „Hver, sem ónýtir eða skemmir eigur annars manns eða sviptir hann þeim, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Þessi umfjöllun er samstarf.