Heilbrigðisráðherra úthlutaði fyrir skömmu um 240 milljónum króna úr Framkvæmdajóði aldraðra til endurgerðar hjúkrunarrýma á gamla Sólvangi í Hafnarfirði. Það styttist í að framkvæmdum ljúki við byggingu nýs hjúkrunarheimilis við Sólvang með hjúkrunaríbúðum fyrir 60 íbúa sem eru nær jafnmörg rými og á gamla Sólvangi. Fjarðarpósturinn leitaði viðbragða Hollvinasamtaka Sólvangs.

Drónamynd af Sólvangssvæðinu í haust/Olga Björt
„Við í stjórn Hollvinasamtaka Sólvangs urðum að vonum glöð þegar við fréttum af því að til stæði að fjölga hjúkrunarrýmum á Sólvangi. Í nýju byggingunni verða 60 hjúkrunarrými og þeim verður fjölgað um 33 rými með endurbótum á gamla Sólvangi, þ.e. samtals 93 hjúkrunarrými,“ segir Lovísa Árnadóttir, fulltrúi í stjórn Hollvinasamtaka Sólvangs. Ásamt henni í stjórninni eru Guðmundur Fylkisson, Unnur Birna Magnúsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Elísabet Valgeirsdóttir. Hollvinasamtök Sólvangs voru upphaflega stofnuð með það markmið að nýtt hjúkrunarheimili í Hafnarfirði yrði byggt við Sólvang. „Við vildum líka að eldra húsið yrði tekið í gegn og nýtt áfram til að þjónusta aldraða, sem hjúkrunarheimili og dagvist o.fl.“

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, ásamt Rósu Guðbjartsdóttur við nýbyggingu Sólvangs í október sl. þegar ráðherra veitti bænum heimild til að fjölga hjúkrunarrýmum í bænum um 33.
Þakklát heilbrigðisráðherra
Þessum endurbótum á gamla Sólvangi fylgja 240 milljónir úr framkvæmdasjóði aldraðra og að sögn Lovísu gera Hollvinasamtökin ráð fyrir að það verði gerður samningur um reksturinn í samræmi við það. „Við höfum ekki séð kostnaðaráætlun vegna framkvæmda við gamla Sólvang, en gerum ráð fyrir að það verði gert af myndarskap. Við höfum beitt okkur fyrir þessu og er það því mikið gleðiefni að þetta sé í höfn. Við erum heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur afar þakklát fyrir að hafa brugðist svona fljótt og vel við.“
Myndir OBÞ