Tónskáldið Hildur Guðnadóttir er fædd 1982 og uppalin í Hafnarfirði, dóttir Ing­veldar G. Ólafs­dóttur og Guðna Franz­son­ar, sem bæði eru mikið tónlistarfólk. Hildur er menntuð sellóleikari en kann á fjölmörg önnur hljóðfæri, hefur verið kórstjóri, söngkona og í ýmsum hljómsveitum á unglingsárum. Árið 2006 samdi hún undirleik fyrir leikrit í Þjóðleikhúsinu og fyrsta tónlist Hildar sem rataði á hvíta tjaldið var árið 2012. Síðan þá hefur ferill hennar vaxið og dafnað skref fyrir skref, í hennar þolinmóða anda. Í seinni tíð hefur Hildur ein­beitt sér að tón­smíðum fyrir kvik­myndir og hefur alls fengið 21 tilnefningu á alþjóðavettvangi fyrir verk sín. Af þeim hefur hún hlotið 16 þeirra, sjö fyrir tónlist í kvikmyndinni Joker og fimm fyrir slíka í þáttunum Chernobyl. Tvenn verðlaun til viðbótar verða tilkynnt á þessu ári. Þrátt fyrir alla velgengnina, athyglina og glamúrinn leggur fjölskyldumanneskjan Hildur mesta rækt við hamingju hvers dags og segir hana mikilvægasta aflið til góðs árangurs á öllum sviðum lífsins. Við heyrðum í Hildi, en hún býr í Berlín ásamt eiginmanni sínum Sam Slater og syninum Kára. 

Hildur um ársgömul. Mynd/aðsend.

Hildur bjó lengst af á Holtsgötu og gekk í Öldutúnsskóla. Hún segist sjálf í raun allt frá barnæsku aldrei hafa gert neitt annað en tengt tónlist því hún hafi ekki haft önnur áhugamál. „Báðir foreldrar mínir eru tónlistarfólk og því er þetta bæði í blóðinu og ég uppalin við mikla tónlist. Ég man ekki hvenær það byrjaði en það hefur einhvern veginn alltaf verið til staðar. Þegar mamma var ólétt sagðist hún vita að ég myndi heita Hildur og að ég yrði sellóleikari,“ segir Hildur og hlær.

Hildur teiknaði sjaldnast fígúratívar myndir heldur einhvers konar tákn, segir móðir hennar. Mynd/aðsend

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar í uppáhaldi

16 ára flutti hún frá Hafnarfirði til Reykjavíkur til að stunda nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð, því þar var tónlistarbraut sem passaði mjög vel áform hennar og áhugasvið. Hún á sér þó margar góðar minningar úr Hafnarfirði og segir að mikilvægast hafi verið allt frelsið og plássið. „Uppáhalds minning mín er þegar ég og Árný æskuvinkona mín hjóluðum upp í skógrækt og héngum þar heilu og hálfu dagana við að dóla okkur úti í móa. Lesa, spjalla og bara njóta. Það var svo notalegt allt þetta pláss og frelsi til að fara allra sinna ferða sem maður vildi,“ segir Hildur og tekur til viðmiðunar Berlín, þar sem hún býr núna. „Þegar ég er búinn að búa í stórborg eins og Berlín þá finn ég hvað það er mikill munur á frelsinu sem börn hafa á Íslandi. Kári minn er 8 ára og ég sendi hann ekkert einan á róló. Krakkar í dag eru líka með svo mikið áreiti og prógramm að þau upplifa síður svona frelsi og ró. Það er þó dásamlegt að búa hér í Berlín en á allt annan hátt og margt fólk sem ég vinn með býr hér og það er stutt að fara á milli staða og ódýrt að búa hérna. Þegar ég var að byrja í tónlist og hafði ekki mikið á milli handanna og þá skipti máli að hafa efni á leigu og nauðsynjum. Borgin hefur þó aðeins breyst á nokkrum árum,“ segir Hildur. 

Ein af fáum myndum frá unglingsárum Hildar í vörslu móður hennar. Þarna eru þær saman í fermingarferð í Barcelona. Mynd/aðsend
Með selló sem átti eftir að eiga stóran þátt í að gera Hildi heimsfræga. Mynd/aðsend

Staðalímyndir og álit annara skipta ekki máli

Lokaorð einlægrar þakkarræðu Hildar á Óskarsverðlaunahátíðinni í febrúar í fyrra vöktu heimsathygli, en þar hvatti hún allar stúlkur, mæður og dætur, sem finna tónlist ólga innra með sér, að láta í sér heyra því raddir þeirra væru mikilvægar. Við spurðum því Hildi hver sé besta leiðin til að hafa svona mikla trú á sér. „Það er lang mikilvægast að standa þéttingsfast með því sem maður trúir á, hefur áhuga á og kveikir í manni. Og láta ekki staðalímyndir eða hugmyndir annarra hafa of mikil áhrif á það sem maður trúir á að geta gert af heilindum. Það er svo mikilvægt að fylgja áhugasviði sínu því það gerir það meira gefandi. Til þess að njóta þess þarf maður að hafa áhugann. Og því meira getur maður gert á sínu sviði.“ Það geti tekið lengri tíma en að fara „venjulegu leiðina“ og það þurfi kannski meiri þolinmæði í það, sérstaklega þegar farið er ótroðnar slóðir. „En það borgar sig held ég alltaf, að standa með sér og vingast við sjálfa sig og gera ekki lítið úr sjálfum sér eða eitthvað annað sem getur staðið í vegi fyrir því að láta drauma rætast. Við stöndum eiginlega mest í vegi fyrir sjálfum okkur. Því meira sem við skömmum okkur fyrir að vera ekki nógu þetta eða hitt brjótum við okkur bara niður,“ segir Hildur. 

Hildur flytur hina eftirminilegu þakkarræðu á Óskarsverðlaunahátíðinni. Mynd/skjáskot frá útsendingunni.
Hildur og eiginmaður hennar, Sam Slater, á kvikmyndahátíð í Feneyjum 2019. Mynd/aðsend

Litlu stundirnar fallegustu augnablikin

Hamingjan er Hildi hugleikin og hún segir hana í raun vera lykilinn að velgengni. „Það er mikilvægast af öllu að eiga hamingjusamt líf og líka vel við sjálfan sig. Reyna að hafa það að leiðarljósi að hafa gaman af því sem maður fæst við hverju sinni. Líka heima hjá sér. Eyða ekki of miklum tíma í það sem er leiðinlegt. Það hljómar mjög einfalt en það er það oft ekki. Það eru kannski glansmyndir af einhverjum verðlaunum og athöfnum sem líta út fyrir að vera aðal málið en það er samt mikilvægast að geta notið hversdagsins. Að einmitt hann sé fallegur, góður og gefandi. Það er það sem gefur manni mestu hamingjuna. Að fara á svona hátíðir er í raun svo lítill hluti af lífinu þegar horft er á það í heild. Mikilvægast að líða vel heima hjá sér með fjölskyldunni og njóta hvers dags. Við flýtum okkur svo oft í gegnum hversdaginn. Fallegustu augnablikin í lífinu eru nefnilega samveran með fjölskyldunni eins og spjall með barninu sínu fyrir svefninn. Þessar litlu, fallegu stundir.“ 

Hildur og móðir hennar, Ingveldur G. Ólafsdóttir, áður en þær mættu á Óskarsverðlaunahátíðina fyrir rétt rúmu ári. Mynd/aðsend

„Hildur er mjög marksækin. Hún veit hvað hún vill og hvert hún vill stefna. Ég myndi segja að hún sé langhlaupari frekar en spretthlaupari. Upp í hugann kemur minning af Hildi frá því hún var sjö ára. Ég hafði gefið henni bleikt hjól með blómaskreyttri körfu og hjálpardekkjum. Á nánast hverjum degi yfir sumartímann fór hún út að labba með hjólið sitt niður Strandgötuna, frá húsi nr. 85 og niður að Fjörukránni. Henni var margboðin aðstoð við að koma sér upp á hjólið og treysta hjálpardekkjunum. En nei takk!! Hún vildi gera þetta sjálf. Og með hjólið labbaði hún í tvö sumur. Hún fór sér engu óðslega hún Hildur mín og gerir ekki enn.“ (Móðir Hildar, Ingveldur G. Ólafsdóttir)

Að endingu vill Hildur koma því á framfæri að henni þyki ofboðslega vænt um þennan heiður að vera Hafnfirðingur ársins. „Mér þykir alltaf vænt um Hafnarfjörðinn minn og yndislegt að vita að fólk muni eftir mér í bænum. Ég segi bara, drífið ykkur upp í skógrækt og njótið útiverunnar og frelsisins þar,“ segir hún að lokum og hlær sínum dillandi hlátri.