Myndir af Sigrúnu: Hildur Valgerður Heimisdóttir.

Sigrún Jónsdóttir er þroskaþjálfi, „life coach“ og sérhæfður ADHD- og einhverfu-markþjálfi. Hún kláraði diplomanám í hugrænni atferlismeðferð og hefur ástríðu fyrir að aðstoða fullorðna, fjölskyldur og fólk, aðallega börn, með fyrrnefndar greiningar. Sigrún fór að sýna alvarleg einkenni kulnunar árið 2016 og vinkona hennar hvatti hana til að sækja um hjá VIRK. Hin harðduglega Sigrún glímdi jafnframt við eigin fordóma og fannst aðrir en hún þurfa meira á hjálpinni að halda.   

Í nóvember 2016 sagði vinkona Sigrúnar við hana að henni fyndist hún vera orðin frekar ólík sjálfri sér og hvatti hana til þess að komast í viðtal hjá VIRK. „Ég var sko ekkert á leiðinni þangað því ég var svo dugleg kona! Ég var sífellt að finna leiðir fyrir aðra en sjálfa mig. Ég var orðin örmagna og fjarræn, þótt ég stæði alltaf mína plikt,“ rifjar Sigrún upp. Hún hafði þá starfað í grunnskóla hér í bæ sem þroskaþjálfi í 15 ár. Í desember 2015 sama ár fór Sigrún til heimlislæknis síns og sagði þessar tvær setningar: „Ég er alveg búin á því. Það þarf eitthvað að gerast til að hægt sé að snúa dæminu við.“ Heimilislæknirinn sagði þá: „Þetta heitir að ganga á vegg“ og Sigrún samþykkti í framhaldinu að sækja um hjá VIRK, þótt tilfinning hennar væri sú að aðrir þyrftu meira á því að halda en hún. Það var ekki svo mikið að henni!“

Ráðgjafinn greip í taumana

Sigrún hélt svo áfram í starfi sínu eftir áramót, alveg örmagna, þar til símtalið frá VIRK kom og hún var boðuð í viðtal um miðjan janúar. „Ég var að sjálfsögðu með skoðanir á því hvað ég þyrfti á að halda og hverju ekki og hvaða námskeið ég ætlaði að sækja á þeirra vegum. Og ég var enn með þá skoðun að það væri ekki nógu mikið að mér.“ Ráðgjafi VIRK greip þá í taumana og sagði Sigrúnu að skrá sig af námskeiðunum, sleppa kaffi eftir kl. 14 á daginn og fara heim að hvíla sig. Síðan var útbúið einstaklingsmiðað plan fyrir hana. „Ég þakkaði þessari konu síðar fyrir að hafa tekið á móti mér þegar mér fannst ég vera að svíkja mér leið inn í VIRK. Þá sagði hún (ráðgjafinn): Veggirnir voru smitaðir af ótta þegar þú komst hingað inn.“

„Ég naut góðs af tímanum hjá VIRK og lærði aðferðir og fékk verkfæri til að vernda orkuna mína.“

Varð fyrir líkamlegu ofbeldi í störfum

Sigrún segist hafa mætt velvild og skilningi hjá vinnuveitanda sínum og samstarfsfólki og er þeim afar þakklát fyrir það. Hún er einn af þeim þroskaþjálfum sem hafa unnið með fólk sem hefur sýnt alvarlega erfiða hegðun. „Á tveimur stofnunum sem ég starfaði á varð ég fyrir líkamlegu ofbeldi sem rekja má m.a. til óöryggis vegna undirmönnunar. Mér hætti til að draga úr þeirri hættu sem ég var í raun komin í. Seinna í starfi mínu í grunnskóla fann ég líka fyrir miklu álagi eftir að áherslan Skóli fyrir alla var sett á. Það vantar burðug úrræði og að stöðug þjálfun sé í gangi og þekking meðal alls starfsfólks í þessu á landsvísu. Það er í raun ákveðin þöggun sem ríkir í tengslum við þetta.“

Fékk verkfæri til að vernda orkuna

Sigrún fann að smátt og smátt að starf hennar, sem hún brann svo innilega fyrir, hafði meiri áhrif á taugakerfið hennar en hún hélt. Svo bættust við persónuleg áföll, álag og streitutímabil, þar til eitthvað gaf undan. „Ég naut góðs af tímanum hjá VIRK og lærði aðferðir og fékk verkfæri til að vernda orkuna mína. Ég gaf mér svo góðan tíma til uppbyggingar þar til ég kom aftur til starfa eftir nokkra mánuði vorið 2016 en með eftirfylgni frá Virk til nóvember sama ár.“ Sigrún fór í nám í ADHD markþjálfun og life coach og lauk vottun í júlí í fyrra. Hún er að stofna fyrirtækið Míró markþjálfun og ráðgjöf, en starfsemin fer á fullt í vor í Hafnarfirði. Þar mun hún starfa með einstaklingum með ofangreindar greiningar ásamt þvi að vinna með fólki sem hefur verið í svipuðum aðstæðum og hún sjálf og notar þar markþjálfunina til að hjálpa fólki að takast á við þær breytingar sem það vill fara í.

https://www.instagram.com/mirocoach/?hl=en

https://www.facebook.com/miromarkthjalfunogradgjof/