Nú hefur meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar tekist (sjá samþykkt í bæjarstjórn 19. ágúst)  að þröngva í gegn nýju deiliskipulagi fyrir reitinn Gjótur á svæðinu Hraun vestur sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Hjallahrauni og Helluhrauni. Samkvæmt þessu nýja deiliskipulagi er byggingamagnið á reitnum stórlega aukið og gert ráð fyrir 490 íbúðum eða um 1.400 íbúum á þessum litla reit sem er íbúafjöldi á við meðalstórt bæjarfélag úti á landi. Í ásetningi sínum hefur meirihlutinn ekkert látið stöðva sig, hvorki fjölmargar athugasemdir Skipulagsstofnunar, minnihlutans í bæjarstjórn eða skynsamleg rök bæjarbúa. Til að ná sínu fram hafa þeir breytt rammaskipulagi svæðisins, aðalskipulagi og nú síðast deiliskipulaginu.  Engar haldbærar skýringar hafa fengist hjá meirihlutanum varðandi ástæðu fyrir þessari breytingu. Þeir skýla sér gjarnan á bak við að þetta sé liður í þéttingu byggðar vegna Borgarlínunnar. Fyrr má nú rota en dauðrota.

Þekkt er að lóðareigendur og verktakar beiti stjórnendur í bæjarfélögum þrýstingi til að ná fram sínum hagsmunum. Ekkert óeðlilegt við það en það er hins vegar í höndum meirihluta hvers bæjarfélags að ná ásættanlegri lendingu sem allir hagsmunaaðilar geta sætt sig við. Það hefur meirihlutinn ekki gert hér í bæ. Það þarf ekki spámann til að sjá að meirihlutinn tekur hagsmuni lóðarhafa og verktaka fram fyrir hagsmuni bæjarbúa. Það er reyndar ekki nýtt hjá meirihlutanum og nægir þar að nefna breytt deiliskipulag á Fornubúðar 5 reitnum og furðulegan gerning varðandi byggingu knatthúss í Kaplakrika en þar keypti bærinn eignir sem hann átti sjálfur til að liðka til fyrir framkvæmdunum. Það skondna í þeim málum er að athafnamaðurinn sem þar átti hlut að máli launaði greiðann ekki betur en svo að hann krafði bæinn um bótagreiðslu vegna seinagangs við skipulag á Fornubúðarreitnum. Já, það er ekki öll vitleysan eins hjá núverandi meirihluta í Hafnarfirði.

Sigurður Pétur Sigmundsson

Fulltrúi Bæjarlistans í Skipulags- og byggingaráði Hafnarfjarðar