Á síðasta bæjarstjórnarfundi hafnaði núverandi meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks rammaskipulagi fyrir hverfið Hraun-Vestur sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði tekið fullan þátt í að móta á síðasta kjörtímabili. Um tillöguna var góð sátt og hún unnin í samstarfi við íbúa, lóðarhafa og í samræmi við svæðisskipulag sem gerir ráð fyrir þéttingu byggðar og uppbyggingu Borgarlínu. Í maí 2018 var tillagan samþykkt í skipulags- og byggingaráði án athugasemda og vísað til bæjarstjórnar til kynningar og áframhaldandi úrvinnslu.

Það var ekki fyrr en nær tveimur árum síðar, þ.e. nú í febrúar að tillagan var tekin fyrir í bæjastjórn að frumkvæði minnihlutans. Þá kveður við annan tón hjá meirihlutanum og á fundinum fann núverandi meirihluti henni þá allt til foráttu og hafnaði henni. Það kom ekki á óvart, því meirihlutinn í skipulags- og byggingaráði hefur lagst gegn öllum tillögum okkar í minnihlutanum um að rammaskipulagið verði haft að leiðarljósi við uppbyggingu hverfisins.

Uppbygging og framtíðarsýn í uppnámi

Rammaskipulagi er ætlað að gefa leiðbeinandi heildarsýn um þróun hverfisins. Þar er gert ráð fyrir að breyta iðnaðarhverfi í íbúðavænt svæði með fjölbreyttri þjónustu og yrði eins og andlit bæjarins við innkomu í bæinn.  

Nú hefur meirihlutinn hafnað þessari stefnumótun sem kynntvar var bæjarbúum. Ljóst er að svæðið verður nú ekki skipulagt sem ein heild, heldur með bútasaumi án þess að nokkur heildarsýn sé í fyrirrúmi. Þá blasir við hættan af óhóflegu byggingarmagni með stórhýsum á kostnað grænna og opinna svæða og uppnám í innviðauppbygging; leik- og grunnskóla, verslun og annarri þjónustu sem bitnar á íbúum.

Hafnarfjörður er fallegur bær, og við viljum standa vörð um það sem einkennir hann. Með því hafna eigin rammaskipulagi er núverandi meirihluti að stefna skipulaginu í ógöngur með ærnum tilkostnaði, óþarfa töfum og hamla vexti bæjarins.

Stefán Már Gunnlaugsson

Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði