Bryndís Jóna Jónsdóttir er núvitunarkennari og aðjúnkt við Menntavísindasvið HÍ og ein af eigendum Núvitundarsetursins. Hún er höfundur bókarinnar Núvitund í dagsins önn, sem BF útgáfa gefur út. Bryndís hefur lengi haft áhuga á núvitund og jákvæðum áhrifum hennar. 

Bryndís starfaði lengi í Flensborgarskólanum, m.a. við að þróa og innleiða Heilsueflandi framhaldsskóla. „Þegar við byrjuðum að vinna með geðræktaþemað haustið 2012 var ákveðið að bjóða starfsfólki upp á núvitundarnámskeið. Ég fann strax að nálgun núvitundarinnar höfðaði sterkt til mín,“ segir Bryndís og bætir við að í raun sé þetta þjálfun í ákveðnu lífsviðhorfi; hvernig maður nálgast áskoranir og gleðina í daglegu lífi. „Þannig að strax árið 2013 byrjaði ég á að fara til Bretlands til að þjálfa mig sem núvitundarkennara, bæði fyrir börn og fullorðna og er enn á þeirri vegferð. En auk þess að kenna við HÍ þá erum við Anna Dóra Frostadóttir með þróunar- og rannsóknarverkefni um heildræna innleiðingu núvitundar í leik- og grunnskóla, m.a. hér í Hafnarfirði.“

Nútvitund bætti blómum við lífið

Spurð um eigin reynslu af áhrifum nútvitundar segir Bryndís að hún bæti svo mörgum blómum við líf sitt. „Maður tekur svo miklu betur eftir því sem er að gerast sem annars færi fram hjá manni á sjálfsstýringunni. Ég hef mjög gaman af því að hafa mikið að gera og núvitundarþjálfunin hjálpar mér bæði við að vera fókuseruð í því, en einnig til að vita hvenær þarf að hægja á. Það er þó ekki svo að maður sé fullkomlega núvitaður alla daga, en meðvitundin eykst og það styður mann í að vanda sig í lífinu og taka skynsamlegar ákvarðanir. Maður upplifir lífið á meðan það er að gerast.“

Mynd/OBÞ