Á dögunum birti Rannsóknastofa í tómstundafræðum Háskóla Íslands niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og lífskjör skólanema, en þær byggja á svörum 7.000 nemenda í 6., 8. og 10. bekk. Um 10% nemenda segjast ekki líða vel í skólanum og 2,7%-4,2% nemenda líður mjög illa samkvæmt rannsókninni. Skólapúlsinn mælir sjálfsálit, stjórn á eigin lífi, vanlíðan, kvíða og einelti og skv. nýjustu niðurstöðum hans hefur einelti og vanlíðan aukist. Valdimar Víðisson, skólastjóri Öldutúnsskóla og Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar og ráðgjafi hjá Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar, vilja aukna umræðu og aðgerðir í þessum málaflokki.

Valdimar segist í sínu starfi vera var við aukna skólaforðun. Í nokkrum tilfellum sé fjarvera næstum helmingur af skólatímanum. „Þetta snýst ekki bara um umgjörðina, heldur er þetta samspil margra þátta sem snerta t.d. nám, félagslíf, álag, streitu og samskipti á samfélagsmiðlum. Við tókum þá ákvörðun að hafa Öldutúnsskóla farsímalausan, í samstarfi við foreldra og nemendur, út frá samskiptaformi, áreiti og slíku.“ Valdimar segir að þetta hafi gefið góða raun og t.d. sé ánægjulegt að sjá unglinga spjalla saman í frímínútum. Ákvörðunin hafi m.a. verið tekin út frá því að tekið var eftir því hversu vel nemendur nutu sín símalaus í árlegri ferð að Laugum.

Mynd/OBÞ

Andlegt form hefur versnað

Valdimar og Jón Ingi eru sammála um að samfélagið þurfi að gera ráð fyrir aukinni samveru, því alltof auðvelt sé að grípa í símann og þá séu foreldrarnir ekki barnanna bestir. „Foreldrar þurfa líka aðstoð við að vera góðar fyrirmyndir. Samfélagið stendur sig vel í að rækta líkamlega heilsu barna og þau eru almennt heilsuhraust. Það sama á ekki um andlega formið. Við verðum að gera miklu betur þar.“ Jón Ingi hef síðastliðinn tæpan áratug starfað í starfsendurhæfingarmálum og tekið eftir hvað kúnnahópurinn er að yngjast. „Eftir hrun var algengur aldur 30-50 ára, en núna fer aldurinn 18-25 ára ört vaxandi. Það er þungt yfir þessum hópi sem hefur týnst í sófanum heima hjá sér í nokkur ár eftir að hafa flosnað úr námi og félagslífi. Nokkur ár á þessum aldri er heilmikill og dýrmætur tími. Félagsleg færni hefur minnkað og vandamálin stækkað. Það er eins og að eitthvað hafi gerst í vestrænum heimi fyrir 10 árum, t.d. með aukinni notkun snjalltækja og samskipta. Nýtt landslag sem við kunnum ekki almennilega á og við verðum að grípa fyrr inn í.“

 

Mynd: Shutterstock

Eru heima en samt ekki

Valdimar tekur undir þetta og segir alltof algengt að börn lifi í hliðarveruleika í herberginu sínu. „Þau eru heima en samt andlega í burtu. Það er aukið álag á þau vegna samanburðar á ýmsum sviðum, námslega og félagslega, þar sem þau finna sig knúin til að skila árangri. Það veldur kvíða. Samfélagið er komið svo langt fram úr sjálfu sér. Í stað þess að nálgast börnin eru fyrirlestrar hafðir fyrir foreldra. Við erum alltaf að undirbúa þau fyrir næstu stig, stýra þeim og skutla þeim um allt í stað þess að leyfa þeim að vera börn og finna styrkleika sína.“

Jón Ingi er m.a. markþjálfi og segist í sínu starfi hjálpa fólki við að tala, hugsa og forma langanir sínar, drauma og þrár. „Þá kviknar á fólki og það finnur tilgang. Sama á við um börn og unglinga. Ef við bætum aðgengi að t.d. sálfræðingi til að hjálpa krökkum við að leysa úr því sem þau burðast gjarnan með innra með sér, þá er ég sannfærður um að það getur haft jákvæð áhrif á líðan ungs fólks. Varðandi kostnað þá yrði það í raun fjárfesting því það dregur úr kostnaði sem gæti hlotist síðar á lífsleiðinni.“ Valdimar tekur undir þetta: „Við töluðum fyrir því í bæjarstjórn að vilja bæta aðgengi að ýmsu í skólakerfinu. Vonandi fjölgar fagfólki á þessu sviði í grunnskólum og alls kyns stoðþjónusta. Það er samfélagslegt verkefni okkar allra að finna leiðir.“

Þriðja bylting mannkyns

Jón Ingi talar um aukinn kvíða sem fylgi táningsaldrinum og þar komi tæknibyltingin við sögu. „Við erum í 3. byltingu mannkyns á eftir landbúnaðar- og iðnbyltingu. Okkar kynslóð er með annan fótinn í iðnbyltingunni og hinn í tæknibyltingunni. Handritið að lífinu er ekki lengur til því samfélagið er háð svo örum breytingum. Þessi kynslóð á eftir að gera stórkostlega hluti í framtíðinni en tæknin skapar einnig kvíða og óöryggi.“ Valdimar bætir við: „Heimilin þurfa að vera með í því að hjálpa börnunum að fóta sig í þessum veruleika og í mörgum tilfellum eru börnin komin miklu lengra í tækninni. Samfélagsmiðlar eru á margan hátt ágætir en við erum gersamlega með heiminn í vasanum vegna stöðugs áreitis í símum.“

Hugarfarsbreyting nauðsynleg

Jón Ingi rifjar upp þegar hann var 9 ára og missti framtönn á skólatíma. „Þá náðist ekki í mömmu og pabba vegna vinnu en það náðist í afa í öðru sveitarfélagi sem fór með mig til tannlæknis. Aðgengi að fólki þykir sjálfsagt í dag. Og börn hafa í því sambandi ekkert skjól lengur, ekki einu sinni í herberginu sínu vegna stöðugs áreitis. Líkamlega eru þau heima en ekki andlega. Við vitum oft ekki hvar þau eru í heiminum. Hvar sem við erum í samfélaginu þá þurfum við að finna út saman hvernig hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað. Næstu rúm þrjú árin er ég í bæjarstjórn og þá finnst mér hlutverk mitt sem finna fjármagn í aukna stoðþjónustu. Og Valdimar á sínum enda sem skólastjóri. Það þarf ekki nema gera tilraun með sálfræðing í einn skóla í tiltekinn tíma og mæla svo hvort það skilar árangri.“