Ingunn Lind Pétursdóttir, nemandi í 7. bekk í Hvaleyrarskóla, sigraði í hinni árlegu Stóru upplestrarkeppni sem fram fór í Hafnarborg fyrir skömmu. Ingunn Lind er ekki óvön framkomu og tjáningu því hún er í kór og hefur mikinn áhuga á leiklist. Við hittum hana og móður hennar, Guðrúnu Björgu Gunnarsdóttir, á heimili þeirra á holtinu.

Ingunn Lind við fallega skreytt eldhúsborðið. Mynd/OBÞ

Við byrjum á að spyrja Ingunni Lind hvers vegna hún er svona góð í upplestri. Hún flissar vinalega og segir: „Ég les fimm sinnum viku fyrir skólann en ég æfi mig mikið í að lesa upphátt þegar ég les. Við lærum líka ljóð einu sinni í viku og lesum það upp í púlti.“ Hún segist ekki lesa mjög mikið umfram það en þó séu íslenskar spennubækur og sorglegar bækur í mestu uppáhaldi. Guðrún Björg stingur þarna inn í: „Við skoðum alltaf vel jólabókaflóðið. Kertasníkir kemur alltaf með bækur á þetta heimili.“ En var ekkert stressandi að keppa í upplestri? „Jú reyndar aðeins því það voru svo margir rosalega góðir upplesarar. Ég þekkti líka marga þarna sem ég hafði kynnst í leikskóla, kórnum og víðar. Ég er líka með mikið keppnisskap,“ segir Ingunn Lind og brosir.

Ingunn Lind les upp í keppninni. Mynd: Bergdís Norðdahl.

Það er greinilega sterkt og gott samband á milli mæðgnanna. Mynd/OBÞ

Hvaleyrarskóli stendur sig vel

Spurð um stærstu fyrirmyndir hugsar Ingunn Lind aðeins um, horfir svo á mömmu sína og segir stolt: „Mamma er stór fyrirmynd mín. Hún tekur af skarið og lætur ekkert stoppa sig. Hún gerir mér líka grein fyrir að það þarf að hafa fyrir hlutunum til að ná árangri.“ Móðir hennar, Guðrún Björg, brosir og fer aðeins hjá sér en bætir við: „Það er bara mikilvægt að allir finni sína leið á sínum hraða. Það er ekkert ómögulegt. Ingunn Lind á auðvelt með að koma fram og hefur tekið þátt í vorsýningum hjá Listdansskóla Hafnarfjarðar og er í Barnakór Hafnarfjarðarkirkju. Þá er tjáning án tals í takti við söguna sem er í gangi. Við ræðum mikið saman fjölskyldan og við erum mjög hreinskilin og opinská. Hvaleyrarskóli stendur sig mjög vel í því að efla tjáningu hjá nemendum. Markviss málörvun frá 1. bekk. Við vissum líka mjög snemma að það væri hennar svið að koma fram. Okkur finnst hún oft vera eldri en hún er, hún er svo skilningsrík.“

Að lokum er Ingunn Lind spurð um ráð handa þeim sem vilja verða góðir í upplestri: „Æfa sig, ekki hika og hafa trú á ykkur.“