Gaflaraleikhúsið frumsýnir í október nýja leikgerð af hinni vinsælu bók Gunnars Helgasonar um Mömmu klikk. Varla þarf að kynnar Gunnar en hann er einn vinsælasti höfundur barnabóka á Íslandi og hafa t.a.m. kvikmynd og sjónvarpsþættir eftir bók hans Víti í Vestmanneyjum slegið í gegn. Mamma klikk er ein mest verðlaunaða barnabók síðari ára og er næsta víst að margir bíða spenntir eftir að fá að sjá bókina lifna við á leiksviðinu.
Mamma klikk fjallar um hina 12 ára gömlu Stellu sem á alveg snarklikkaða mömmu sem er óperusöngkona og er endalaust að koma Stellu í vandræðalegar aðstæður. Eftir sérstaklega vandræðalega uppákomu ákveður Stella að nú sé nóg komið og setur í gang plan til að gera mömmu sína venjulega. Á ýmsu gengur og margir koma við sögu eins og bræður hennar, þeir Siggi og Palli, pabbi hennar prófessorinn, Hanni granni og auðvitað Amma snobb. Leikgerðin er unnin af Björk Jakobsdóttur sem jafnframt er leikstjóri. Verkið er létt og skemmtilegt og ætti að hitta beint í mark hjá allri fjölskyldunni.
Öflugur hópur listafólks
Björk hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir frábærar sýningar fyrir börn og ungmenni og má þar nefna Bakaraofninn, Unglinginn, Stefán Rís og nú síðast Fyrsta skiptið. Björk hefur kallað til liðs við sig öflugan hóp listamanna. Stígur Steinþórsson gerir leikmynd, Freyr Vilhjálmsson hannar ljós og Hallur Ingólfsson sér um tónlistina. Söng- og leikdívan Valgerður Guðnadóttur er í hlutverki Mömmu klikk og Gríma Valsdóttur, sem sló í gegn í kvikmyndinni Svaninum, leikur aðalhlutverkið, hana Stellu. Meðal annarra leikara eru gleðipinnarnir Gunni og Felix (já, Gunni leikur sjálfur í verkinu), hin fjölhæfa og skemmtilega Þórunn Lárusdóttir og Ásgrímur Gunnarsson sem kemur ferskur úr leiklistarnámi frá London auk frábærs hóps barna og unglinga.
Gaflaraleikhúsið hefur á undanförnum árum einbeitt sér að því að gera nýjar íslenskar sýningar fyrir börn og ungmenni með góðum árangri og hefur kynnt töfra leikhússins fyrir þúsundum barna og ungmenna og foreldra þeirra. Mamma klikk hefur allt til að bera til að geta orðið frábær fjölskyldusýning; stórskemmtilega sögu Gunnars Helgasonar, afar hæfileikaríkan leikhóp og leikstjóra, dillandi skemmtilega tónlist og síðast en ekki síst endalausa gleði og kærleika til áhorfenda.
Myndir aðsendar