Gaflaraelikhúsið mun frumsýna Mömmu klikk! eftir Gunnar Helgason í leikgerð og leikstjórn Bjarkar Jakobsdóttur 12. október 2019. Leikarar í verkinu verða nokkrir af allra bestu leikurum og söngvurum Íslands. Gaflaraleikhúsið (og mömmu) vantar þó einhvern til að leika Sigga litla sætabrauð, já eða Sigga sítrónu, eins og hann er hvað þekktastur núna. Því verða opnar prufur fyrir stráka á aldrinum 6-10 ára 19. maí. Áhugasamir eru beðnir um að senda póst á netfangið gaflarar@gmail.com.
Mamma klikk! fjallar um Stellu sem er alveg að verða þrettán ára og á sér þann draum heitastan að verða venjuleg. Þegar verkið hefst er hún vægast sagt í öngum sínum út af því að mamma hennar hefur breyst svo svakalega mikið á undanförnum mánuðum að Stella óttast að hún sé orðin eitthvað klikkuð – í staðinn fyrir að vera venjuleg mamma eins og hún hefur alltaf verið. Þessi breyting á mömmu hefur meðal annars þær afleiðingar að vinkonur Stellu eru farnar að forðast hana þannig að þrettán ára afmælið hennar verður örugglega algjörlega ömurlegt! Það er því bara eitt að gera fyrir Stellu! Hún setur af stað áætlun. Áætlun: breytum mömmu! Hún ákveður að fá bræður sína í lið með sér, þá Palla og Sigga litla en þeir reynast tregir í taumi. Til að byrja með! Það sem gerist í kjölfarið kemur mömmu … og Stellu gríðarlega á óvart!
Bækurnar um Stellu, eftir Gunnar Helgason, hafa heldur betur slegið í gegn hjá íslenskum börnum sem og gagnrýnendum. Mamma klikk! fékk íslensku bókmenntaverðlauniin árið 2015 auk þess sem hún hlaut Bókaverðlaun barnanna sama ár. Pabbi prófessor og Amma best fengu líka Bókaverðlaun barnanna og allar hafa þær, auk Sigga sítrónu verið mest seldu barnabækur á Íslandi árin sem þær komu út.
En af hverju að setja Mömmu klikk! á svið?
„Við sjáum aldrei fatlað fólk í aðalhlutverki í barnaleikritum á Íslandi. Þó að Stella sé í hjólastól er þetta þó ekki leikrit um hana af því að hún er í hjólastól. Þetta er leikrit um hana því hana dreymir um að verða venjuleg. Það er börnum nauðsynlegt að sjá heiminn með augum annarra og átti sig á því að það er til allskonar fólk, öðruvísi fólk en það þekkir í sínu nærumhverfi. Í Mömmu klikk er auk Stellu fjölbreytt persónugallerý. Fjölskylda Stellu er samansett af stelpu í hjólastól, málhaltum litla bróður, sjálfsöruggum stóra bróður, óperusyngjandi móður og háskólaprófessors pabba sem ekur kvartmílubílum um helgar. Þá eru ótaldar viinkonurnar þrjár: Júdita frá Litháen, Fatíma frá Marokkó og Guðbjörg frá hinum ríka hluta Íslands. Þá eru ótalin amma snobb, kona sem er föst í snobbinu en leynir á sér og hefur átt viðburðaríka ævi, Hanni granni, nágranninn níski og erfiði sem verður svo skotinn í ömmu og Blær – besti vinur Stellu sem er líka í hjólastól en lítur öðrum augum á heiminn en Stella,“ segja aðstandendur sýningarinnar.
Mamma klikk er saga úr nútímanum. Og það er mikilvægt. Íslensk börn verða öðru hvoru að fá að sjá sögur sem gerast í því umhverfi sem þau þekkja, þar sem það tungutak er notað sem þau nota. Það stækkar þau sem manneskjur! Og það er markmið Gaflaraleikhússins í hnotskurn. Að gera íslensk leikrit fyrir unga íslenska áhorfendur. Og stækka þau sem manneskjur.