Eins og sést á myndum sem starfsmaður Skógræktar Hafnarfjarðar tók fyrir skömmu, þá eru oft bílastæðavandamál við Hvaleyrarvatn, enda er um að ræða eina allra vinsælustu náttúruperlu í bæjarlandinu. Árni Þórólfsson, skógarvörður hjá skógræktarfélaginu segir að svona hafi ástandið við vatnið verið flesta daga í sumar og einnig sé slæmt símasamband í Sandvíkinni, þar sem flestir vilja vera. Formaður skipulags- og byggingaráðs, segir að þetta verði rætt í ráðinu vikunni. Forstöðumaður tæknideildar hjá Póst- og fjarskiptastofnun segir að stofnunin geri einungis þær kröfur að eitt fjarskiptafyrirtæki sjái um dekkun á svæðinu af öryggisástæðum, þ.e.a.s að hægt sé að hringja í 112. Síminn sýnir áhuga á að setja upp farsímasenda.

Bílum er lagt beggja vegna vegarins og þröng geta auðveldlega myndast. Mynd/Jökull

Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingaráðs, segir í samtali við Hafnfirðing að í sumar hafi íbúar notið sín við vatnið í meira mæli en áður, sem sé frábært. Vandamálið sé aðgengi að svæðinu og einnig þurfi að bæta aðra aðstöðu við vatnið. „Skipulag við og umhverfis Hvaleyrarvatn verður á dagskrá á næsta fundi skipulags- og byggingarráðs þar sem lagt verður til endurskoðun á skipulaginu með tilliti til betra aðgengis og bættri aðstöðu við vatnið. Ég geri ráð fyrir að þeirri vinnu verði hraðað þannig að tillögur til úrbóta liggi fyrir sem fyrst. Þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu bæjarins vegna Covid vonumst við til að geta sett fjármagn til framkvæmda og uppbyggingar við vatnið á næsta ári.” 

Hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar. Mynd af Facebook síðu hennar.

Nægir að eitt símafyrirtæki sé með dekkun á svæðinu

Þórólfur Jónasson, forstöðumaður hjá Póst- og fjarskiptastofnun segir að þegar tíðniheimildir fyrir farsíma/farnet séu gefnar út af stofnuninni séu settar kvaðir um uppbyggingu á fjarskiptafélögin. Þær kvaðir miði við ákveðna prósentu af íbúum landsins. Þessar kröfur hafi öll fjarskiptafélögin fyrir löngu uppfyllt og gott betur en það. „Hins vegar eru staðir víða um land þar sem ekki næst samband eða að samband er takmarkað. Það getur verið mismunandi styrkleiki á merkjum félaganna á þessum stað.“ Á útbreiðslukorti á vef PFS kemur fram er dekkun er á umræddu svæði og þá nægir að eitt af fjarskiptafélögunum séu með hana, þ.e.a.s að samband náist við 112 úr hvaða síma sem er óháð þjónustuaðila. Þau félög sem hafa byggt upp og reka símasambandskerfi á Íslandi eru Vodafone, Síminn og Nova. Aðrir þjónustustaðlar en að hægt sé að hringja í 112 séu svo í höndum þeirra fyrirtækja, hvers og eins. 

Hafnfirðingurinn Erik Figureras Torras, framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Símanum. Mynd/skjáskot úr viðtali á RÚV í vetur.

Áhugi hjá Símanum með uppsetningu farsímasenda

Hafnfirðingur náði sambandi við eitt símafyrirtækjanna, Símann, og þar segir Erik Figureras Torras, framkvæmdastjóri tæknisviðs, að Síminn reki farsímasendi við Sörlastaði en vegna legu landsins nái sá sendir ekki að þjónusta Hvaleyrarvatnssvæðið nema að litlu leyti. Engir innviðir eða aðstaða séu við vatnið fyrir farsímasenda. „Ef sveitarfélagið eða Fjarskiptasjóður myndu t.d. setja upp aðstöðu væri mikill áhugi af hálfu Símans að setja upp farsímasenda við vatnið og nýta þá innviði til góða fyrir farsímanotendur.“

Myndir af Hvaleyrarvatnssvæðinu/Jökull