Ásvallalaug og Sundhöll Hafnarfjarðar opnuðu að nýju mánudaginn 18. maí og við tók hefðbundinn opnunartími á þessum stöðum með smá viðbótum. Suðurbæjarlaug opnar hins vegar ekki strax sökum umfangsmikilla viðhaldsframkvæmda. Hægt er að fylgjast með rauntímafjölda í hverri laug á vef bæjarins undir upplýsingum um sundlaugarnar og mælt er með að fylgast með því.

Sundlaugargestir eru áfram beðnir um að fara í einu og öllu eftir sóttvarnarreglum og sýna því skilning að til að byrja með verður einungis hægt að taka á móti 50% af hámarksfjölda í hverri laug. Ef tilslakanir yfirvalda varðandi sundlaugarnar ganga vel þá mun hámarksfjöldi fara í 75% þann 2. júní og þann 15. júní í 100%. 2ja metra regla um nándarmörk er valkvæð og gestir beðnir um að virða regluna eftir megni og möguleikum og dvelja ekki lengur en 1,5-2klst í hverri sundferð.

Tímabundin lokun ef hámarksfjölda er náð

Á hverjum sundstað verður talið í laugarnar þannig að tryggja megi að fjöldi í hverju rými fari ekki umfram reiknað hámark miðað við stærð sundstaðar og ákvörðun ráðuneytis um hámarksfjölda einstaklinga í sama rými á hverjum tíma. Tímabundin lokun laugar og mögulega ákveðinna rýma mun eiga sér stað ef hámarksfjölda gesta er náð. Börn fædd 2015 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda. 

Mynd/Eva Ágústa Aradóttir