Það fer varla framhjá neinum sem ekur í gegnum Hafnarfjörð þessa dagana að knattspyrnuhúsið Skessan rís í Kaplakrika. Stórar stálgrindur eru komnar og mikið framundan á framkvæmdasvæðinu sem við kíktum á í gær. Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, var glaður og þakklátur þegar við heyrðum í honum. Stefnt er á að hægt verði að hefja æfingar í Skessunni í ágúst. 

„Þegar maður sér húsið rísa fyllist maður gleði og ánægju yfir því að loks fari að sjá fyrir endann á næstum áratugs aðstöðuleysi hér í Kaplakrikanum. Þetta hús mun gjörbreyta aðstöðunni en fyrst og fremst mun húsið gera okkur kleift að einbeita okkur að faglegu starfi og því að veita okkar iðkendum fyrsta flokks þjónustu og þjálfun sem er grunnurinn að árangri í íþróttastarfi,“ segir Valdimar. FH-ingar séu þakklátir forystufólki bæjarins fyrir að hafa gert félaginu þetta kleift með því að kaupa af þeim knatthúsin og þannig láta þetta hús verða að veruleika. „Það er líka ánægulegt að segja að þó framkvæmdin hafi tafist örlítið þannig að í stað júní þá ættum við að geta spilað fótbolta í húsinum í ágúst þá stefnir í að kostnaðurinn verði samkvæmt áætlun sem er mjög mikilvægt fyrir félagið þar sem það ber ábyrgð á framkvæmdinni.“

Hér er myndband sem Axel Guðmundsson, verkefnastjóri hjá FH, sendi Fjarðarpóstinum um það leyti þegar fyrstu grindurnar voru reistar: