Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Hafnarfjarðarbær hafa tekið höndum saman og komið á samstarfs- og þróunarverkefni sem hefur þann tilgang að efla samvinnu þessara aðila í málum barna og unglinga. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs sem fer af stað nú um miðjan mars. Verkefnið hlýtur styrk frá Lýðheilsusjóði.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur haft forgöngu um verkefnið og hefur Hafnarfjarðarbær komið að undirbúningi sl. mánuði. Sigríður Björk segir reynsluna vera þá að þverfaglegt samstarf skili mun meiri árangri en þegar einingar vinna hver fyrir sig og þarna sé unnið að afbrotavörnum í víðu samhengi. Með þessu tilraunaverkefni fái lögreglan tækifæri til að gera betur í málefnum barna og unglinga, en þeir hópar séu lögreglu ofarlega í huga. Verkefnið felur í sér nána samvinnu lögreglunnar og þeirra sem vinna að málefnum barna og ungmenna hjá sveitarfélaginu. Má þar nefna barnavernd, heimilisofbeldisteymi og aðkomu að forvarnarstarfi í grunn- og leikskólum, félagsmiðstöðvum og ungmennahúsi svo eitthvað sé nefnt. Birgir Örn Guðjónsson, lögreglumaður, sinnir verkefninu af hálfu lögreglunnar og mun hafa aðsetur í Ráðhúsi Hafnarfjarðar að Strandgötu 6.
Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, fagnar þessu áhugaverða nýsköpunarverkefni og þar með aukinni samvinnu Hafnarfjarðarbæjar við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. “Þetta tilraunaverkefni fellur afar vel að áherslum okkar í BRÚNNI, verkefni sem hefur verið í þróun síðustu mánuði og felur í sér að brugðist er fyrr við málum og áhersla lögð á að auka þjónustu við fjölskyldur á fyrri stigum. Samvinnuverkefni lögreglunnar og Hafnarfjarðarbæjar fellur einnig vel að áætlunum sveitarfélagsins um Barnvænt sveitarfélag sem unnið verður í samvinnu við UNICEF” segir Rósa.
Mynd frá Hafnarfjarðarbæ.