Á árinu 2020 var úthlutað 24 lóðum í Skarðshlíðarhverfi undir 38 íbúðir og í 1. áfanga í Hamranesi 8 fjölbýlishúsalóðum fyrir alls 296 íbúðir. Allar einbýlishúsalóðir Skarðshlíðar eru seldar og hver að verða síðastur til að tryggja sér lóð undir sérbýli á svæðinu. Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að á fundi bæjarstjórnar í gær hafi 14 umsóknir um verið samþykktar og því einungis 28 lausar til úthlutunar í öllu Skarðshlíðarhverfi. Um er að ræða 3 lóðir fyrir parhús, 24 lóðir fyrir tvíbýlishús og 1 lóð fyrir þríbýlishús. Þegar liggur einhver fjöldi umsókna fyrir fund bæjarráðs Hafnarfjarðar þann 28. janúar nk.

Í tilkynningu segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri að þessi mikli áhugi á sérbýlislóðum í hverfinu sé til marks um góða staðsetningu hverfisins. Tvöföldun Reykjanesbrautar, tilkoma Ásvallabrautar og tilfærsla á Hamraneslínum hafi án efa ýtt undir áhugann á hverfinu sem verði til lengri tíma litið með fallegri og fjölskylduvænni íbúðahverfum á stór-höfuðborgarsvæðinu. „Greiður aðgangur að verslun og þjónustu, öflugu íþróttastarfi, grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla hefur líka mikið að segja enda einstakt á nýbyggingarsvæðum sem þessum. Einnig heillar nálægðin við náttúruna og fallegt uppland Hafnarfjarðar sem sífellt fleiri njóta með hverju árinu sem líður.“

Aðsend mynd: Yfirlitsmynd frá sumri 2020. Uppbygging í Skarðshlíðarhverfi. Mynd: Onno.

Vinsælt búsetusvæði með uppland í bakgarðinum

Ennfremur kemur fram í tilkynningunni að mikil uppbygging hafi átt sér stað í Skarðshlíðarhverfi, en frumbyggjar fluttu í hverfið sumarið 2019 og þá þegar hafi starfsemi Skarðshlíðarskóla verið komin á fullt og leikskóli opnaður um haustið undir sama þaki. Sumarið 2020 var húsnæði skólasamfélagsins í Skarðshlíð fullbyggt og hýsir það í dag heildstæðan grunnskóla, fjögurra deilda leikskóla, tónlistarskóla og íþróttahús fyrir bæði skólastigin. Þjóna skólanir og starfsemi skólanna nýrri byggð í Skarðshlíð og Vallahverfi að hluta. Einnig er framundan frekari uppbygging íþróttamannvirkja á Ásvöllum sem bætir enn nærliggjandi þjónustu og aðstöðu i hverfunum. Tvöföldun Reykjanesbrautar lauk í árslok 2020 og þá um vorið hófust framkvæmdir við Ásvallabraut sem tengir saman Vallahverfi, Skarðshlíðarhverfi og Ásland. Ráðgert er að Ásvallabrautin verði tilbúin haustið 2021 og þar með verða Skarðshlíð og hverfi innarlega á Völlunum betur tengd Kaldárselsvegi og Reykjanesbraut. Skipulagsvinna, gatnagerð og innviðauppbygging er í fullum gangi þessa dagana í Hamranesi sem liggur við hlið Skarðshlíðarhverfis og Vallahverfis og verður kapp lagt á uppbyggingu á hverfinu til að mæta eftirspurn og áhuga eftir hvorutveggja íbúðum og lóðum á svæðinu. „Hamranesið er um 25 hektara nýbyggingarsvæði og er grunn hugmyndin sú að skipulag hverfisins endurspegli þörf á markaði eftir fjölbreyttum stærðum íbúða. Hamranesið verður líka einstakt hverfi,“ segir Rósa í að lokum í tilkynningunni frá Hafnarfjarðarbæ.

Aðsend forsíðumynd: Hér má sjá hvernig Skarðshlíðarhverfi fellur að núverandi byggð. Hamranesið mun byggjast upp við hlið Skarðshlíðarhverfis.