Flestir hafa eflaust spilað Brennó á sínum yngri árum og í Hafnarfirði er hress hópur af konum á besta aldri sem hittist og spilar þennan skemmtilega leik. Keppnisskapið er til staðar en aðalatriðið er að hafa gaman af því að hittast og rifja upp gamla takta.

Við hittumst tvisvar í viku og spilum brennó, alveg eins og í gamla daga. Þetta eru alveg sömu reglur og fólk þekkir af skólavellinum og liðin eru að sjálfsögðu með einn „kóng“ eða kannski eina „drottningu“ í okkar tilfelli. Fólk er miskunnarlaust skotið út og þetta er bara hörkubarátta. Hópurinn byrjaði að hittast á Álftanesi og spila brennó fyrir um fjórum árum en nú erum við búnar að færa okkur í Hafnarfjörðinn,“ segir Jóhanna Ósk Snædal sem byrjaði í hópnum síðasta haust.

„Hópurinn var fjölmennur í byrjun en í dag er engin af upprunalegu stelpunum ennþá að mæta. Við erum að missa svolítið marga leikmenn vegna óléttu og puttabrota. Stundum borgar sig nefnilega ekki að reyna að grípa boltann,“ bætir Jóhanna við hlæjandi.

Liðið ber ekki nafn en það mun standa til bóta, fari svo að stelpurnar fari að mæta á mót

F.v. Sigurbjörg Helgudóttir, Björg Helga Geirsdóttir, Jóhanna Ósk Snædal, Kristín María Jónsdóttir, Brynja Björk Jónsdóttir, Henríetta Þóra Magnúsdóttir. Mynd: Olga Björt

„Okkur var boðið að taka þátt í móti en við erum ekki búnar að ákveða hvort að við tökum þátt. Það eru lið úr Kópavogi og Hellu sem ætla að mæta en þetta mót verður haldið í maí.“

En hvað þarf marga leikmenn í brennó?

„Við þurfum eiginlega að vera a.m.k. átta sem mætum til að ná í alvöru leik. Þetta er rosa gaman og engin sem fer í fýlu þó að dúndrað sé í hana. Það er bara hefnd í næstu sókn! Þetta er allt í góðu gamni en gamla keppnisskapið er auðvitað til staðar.“

Æfingahópurinn má þó alveg við því að stækka.

„Við erum með æfingar á mánudögum klukkan 19:00 í íþróttahúsi Setbergsskóla og svo í Víðistaðaskóla klukkan 20:00 á miðvikudögum. Við erum að sjálfsögðu á Facebook og hópurinn heitir Brennóstuð – Brennó í Hafnarfirði. Það er bara að skrá sig í hópinn eða kíkja á æfingu og sjá hvort að gömlu brennó-taktarnir séu ekki ennþá í fullu fjöri,“ sagði Jóhanna að lokum.