Í Hæfingarstöðinni við Bæjarhraun 2 er lögð áhersla skipulagða þjónustu og þjálfun í notkun óhefðbundna tjáskipta og í skynörvun sem leiðir til aukinna lífsgæða. 23 notendur koma þangað í vinnu, ýmist frá kl. 8-12 eða 12-16, þar sem þjónustan við þá er einstaklingsmiðuð og stýrð af áætlun og dagskipulagi. Við kíktum í heimsókn og ræddum við Höllu Hörpu Stefánsdóttur, forstöðuþroskaþjálfa.


„Ég er búin að vera hér frá upphafi og er stolt af því. Þetta er sérhæður staður þegar kemur að þessari þjónustukeðju sem er víða um heim,“ segir Halla. Hæfingarstöðin hefur verið rekin af Hafnarfjarðarbæ síðan í upphafi árs 2011 en fram að því tilheyri hún Svæðisskrifstofu málefna fatlaðs fólks á Reykjanesi eða frá upphafi árs 1991. Alltaf hefur verið lögð áhersla á að styrkja þjónustunotendur með langvarandi stuðningsþarfir í notkun óhefðbundinna tjáskipta (AAC). Í flestum tilfellum hafa notendur fengist við Bliss-tungumálið frá barnsaldri sem samanstendur af alls um 5000 táknum sem notuð eru til tjáskipta. „Það eru benditákn á töflu og/eða í fartölvum og spjaldtölvum sem gjarnan er stýrt t.d. með augnstýribúnaði eða höfuðbúnaði. Það fer eftir hreyfigetu notandans.“


Tjáning er grundvallarmannréttindi allra
Í dag koma 23 notendur í Hæfingarstöðina í hverri viku og flestir koma þangað daglega frá kl. 8-12 og 12-16. Auk þeirra koma nokkrir 2-3 skinnum í viku í tjáskiptaþjálfun. „Hingað koma t.a.m. sjö Reykvíkingar því þjónustan er ekki í boði í Reykjavík. Ég hef sagt í a.m.k. 30 ár að það að geta tjáð sig sé það mikilvægasta sem til er. Hjá Hæfingarstöðinni erum við með það gildi að tjáning sé grundvallarmannréttindi allra,“ segir Halla og bætir við: „Að geta æft sig í tjáningu fjóra tíma á dag er ígildi vinnu. Við vinnum út frá einstaklingsáætlun og skýr starfsáætlun er sett upp á hverju ári. Við erum með langa reynslu í óhefðbundnum tjáskiptum og tækninotkun, höfum ferðast víða um heim á ráðstefnur bæði til að taka þátt í þróun Bliss-tungumálsins og tæknibúnaðar.“


Herbergi með skynörvun
Hjá Hæfingarstöðinni er einnig mikið lagt upp úr að umhverfið sé viðeigandi og þar eru m.a. sérstök herbergi innréttuð til að ná fram skynörvun. Hópnum sem kemur til okkar er skipt í tvennt, þótt mikið rennsli sé á milli, vegna þess að forsendur eru misjafnar. Þetta hefur breyst mikið síðan ég varð þroskaþjálfi árið 1980. Við leitumst alltaf við að vera til fyrirmyndar í þjónustu við þennan hóp, þ.e. fólk með langvarandi stuðningaþarfir,“ segir Halla að lokum.

Myndir aðsendar.
Þessi umfjöllun er samstarf.