Leikskólastjórar Hafnarfjarðarbæjar hafa komið á framfæri mótmælum til Fræðsluráðs vegna fyrirhugaðrar sumaropnunar leikskólanna 2021. Áhyggjur okkar snúa að hag leikskólabarna. Við sem erum sérfræðingar í kennslu á leikskólastigi sjáum ekki að breytingin verði skref í átt að barnvænna samfélagi. Við höfum einnig áhyggjur af upphafi og enda skólaársins, útskrift, innritun og aðlögun nýnema sem mun seinka við þessa aðgerð og jafnvel flytjast inn í haustmánuði. Sú seinkun á eftir að koma illa við foreldra ungra barna, skipulag og starf dagforeldra, sem treysta orðið á að geta tekið inn ný börn í ágúst.

Í okkar huga er hlutverk leikskólans skýrt, en skilin, annarsvegar á milli kennslu/umönnunar sem er hlutverk okkar í daglegu leikskólastarfi og hinsvegar vistunar/gæslu eru orðin óskýrari með þessari ákvörðun Fræðsluráðs. Í okkar huga þurfa mörkin milli kennslu og þjónustu að vera skýr þegar rætt er um sumarlokun og í því sambandi bendum við á að í grunnskólanum fara allir kennarar í orlof á sama tíma og við taka leikjanámskeið.

Yfirlýsing Fræðsluráðs um að starfsemi leikskólanna verði óskert í sumaropnun stenst því enga skoðun. Á sama tíma og dregið er úr framkvæmdum við að bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks í leikskólunum er farið í dýra breytingu á skólahaldi með því að halda leikskólunum opnum allt árið.

Sumaropnun þýðir flóknara starfsmannahald og dýrari rekstur leikskólanna þó leikskólastjórar hafi enn ekki verið upplýstar um kostnað við þessa breytingu. Þessi ákvörðun kemur okkur sérkennilega fyrir sjónir þar sem ekkert samráð var haft við okkur sem þó berum ábyrgð á starfssemi og rekstri leikskólanna. Í skoðanakönnun sem send var foreldrum á síðasta ári kom fram að 79% foreldra vilja val um sumarleyfistíma. Af þeim sem svöruðu könnuninni vildu 56% fara í frí í júlí en 44% valdi annan tíma á árinu. Leikskólastjórar hafa fullan skilning á óskum foreldra um breytilegan tíma sumarleyfis barna sinna.

Í okkar hópi sem og hópi starfsmanna leikskólanna hafa þær raddir heyrst að núverandi fyrirkomulagi á sumarlokun leikskólanna, það er alltaf á sama tíma, minnki möguleika hjóna og para til að vera saman í orlofi. Mat okkar er engu að síður að hagur barna og festa í upphafi og enda skólaársins vegi þyngra en frelsi til orlofstöku.

Leikskólastjórar Hafnarfjarðarbæjar.

Mynd/OBÞ