Minnihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggst alfarið gegn ákvörðun meirihlutans um að selja hlut bæjarbúa í HS Veitum og sendi þetta fréttatilkynningu.

Afstaða okkar byggir á eftirfarandi:

1.         Við teljum ótækt að Hafnarfjarðarbær selji hlut sinn í sterku fyrirtæki á einokunarmarkaði. Það er skylda okkar að standa vörð með íbúum og kaupendum þjónustunnar. Einkavæðing innviðaþjónustunnar sem ekki lýtur samkeppnislögmálum endar yfirleitt ekki vel.

2.         Við teljum tímasetningu sölunnar einkennilega. Ákvörðun um sölu hlutarins var tekin af meirihlutanum í apríl. Enn liggur ekki fyrir umfang fjárhagsvanda sveitarfélagsins vegna Covid-19 og hvort salan reynist nauðsynleg af hans sökum. Hér er verið að nota Covid19 faraldurinn sem skálkaskjól einkavæðingar.

3.         Við teljum meirihlutann skorta lýðræðislegt umboð fyrir sölunni. Það að óska ekki eftir áliti bæjarbúa, sem er hinn raunverulegi eigandi hlutarins, er ólýðræðislegt þegar um svo stóra ákvörðun er að ræða. Ákvörðun sem enginn stjórnmálaflokkur hefur haft á stefnuskrá sinni í áraraðir.

4.         Við teljum að hér sé verið að selja á undirverði þar sem augljósir vaxtamöguleikar HS Veitna eru ekki teknir inn í verðmætamat fyrirtækisins. Hér er verið að gefa frá sér mikil verðmæti til framtíðar.

5.         Ekki er hægt að leggja að jöfnu eignarhald lífeyrissjóða og sveitarfélaga í innviðum. Lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar vinna að því að ávaxta fé sitt, sú ávöxtun mun koma úr vasa neytenda á formi aukinna arðgreiðslna út úr veitunum.

6.         Sá lagarammi sem stuðst er við þegar kemur að því að ákvarða verð á þjónustu HS Veitna er í besta falli óljós og er alls ekki sá varnagli þegar kemur að ákvörðun verðs til neytenda sem meirihlutinn lætur í veðri vaka.

7.         Bæjarfulltrúum Hafnarfjarðar hefur kerfisbundið verið haldið frá ferlinu. Ákvarðanir og umræður hafa farið fram í bæjarráði þar sem einungis hluti bæjarfulltrúa og flokka í bæjarstjórn hefur rödd. Þetta mál er þannig vaxið að það þarf breiða og djúpa umræðu í bæjarstjórn fyrir opnum tjöldum.

8.         Við teljum að ferlið allt sé án heimildar þar sem bæjarstjórn gaf aldrei formlegt leyfi fyrir söluferlinu, salan var samþykkt þegar söluferlið var yfirstaðið. Leyfið var gefið eftir á. Það eru í besta falli óvönduð vinnubrögð. 

Friðþjófur Helgi Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Árni Rúnar Þorvaldsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarlistans
Sigurður Þ. Ragnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins