Leik Íslands og Portúgal í undankeppni EM lauk á Ásvöllum hér í Hafnarfirði rétt áðan, með 32 stigum Íslands gegn 23 stigum Porgúala, eftir verulegan viðsnúning í seinni hálfleik. Eins og sóttvarnareglur segja til um voru engir áhorfendur leyfðir. Ásvellir voru valdir fyrir leikina vegna framkvæmda í Laugardalshöll. Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, sagði í viðtali við Hafnfirðing í dag að það sé heiður fyrir Hauka og Hafnfirðinga að fá að hlaupa í skarðið, en krefjist undirbúnings og fagmennsku upp á tíu.
Þorgeir segir Ásvelli uppfylla kröfur Evrópska handknattleiksskambandsins sem Laugardalshöll gerir ekki um sinn. „Við höfum unnið vel með HSÍ og það var auðsótt hjá þeim að við sæjum um þetta á meðan Höllin er í viðgerð, ef þeir fara fram á það. Kvennalandsliðið í handbolta hefur sýnt því áhuga að hafa Ásvelli sem sinn heimavöll og karlalandsliðið nýtir aðstöðuna, því það er alveg hálft ár þar til hún verður nógu góð aftur í Laugardalshöll.“

Íþróttahúsið á Ásvöllum er að sögn Þorgeirs vel skipulagt og kröfurnar fyrir svona æfingar og leiki séu miklu meira en góður völlur, salur og fjöldi áhorfenda, þegar þeir mega vera. „Það þarf aðstöðu fyrir allt sem lýtur að svona, s.s. sjúkraþjálfun, lækna og slíkt. Við erum t.a.m. búin að hylja allt hérna í húsinu. Það má ekki sjást í auglýsingar, körfuboltaspjöld eða neitt sem var fyrir og tengist vanalegri starfsemi. Mikil vinna hefur farið í að gera það allt vel.“
Áhugi fyrir því að Ásvellir verði heimavöllur kvennalandsliðsins
Lið Íslands og Portúgal hafa æft á Ásvöllum undanfarna daga en nota ekki klefana vegna sóttvarna. „Þeir koma í rútum hingað og svo inn um neyðarútganga á sínum hvorum staðnum í húsinu. Þetta er allt skipulagt upp á tíu og mikill heiður að geta boðið upp á þetta. Ég og bæjarstjórinn áttum samtal fyrir einu og hálfi ári síðan þegar það var kvennalandsleikur og þá var sýndur áhugi á að Ásvellir yrðu gerðir að heimavelli liðsins. Það er hægt að bæta við pöllum til að uppfylla það að taka við þeim fjölda áhorfenda sem þarf,“ segir Þorgeir að lokum.

Ísland er nú í öðru sæti riðilsins með 4 stig eftir þrjá leiki í riðlinum en Portúgalar eru á toppnum með 6 stig eftir fjóra leiki. Ísland og Portúgal mætast næst í fyrsta leik á HM í handbolta á fimmutdaginn kemur. Í íslenska hópnum í dag voru m.a. Hafnfirðingarnir Ágúst Elí Björgvinsson (varði 10 skot), Gísli Þorgeirsson og Ólafur Andrés Guðmundsson. Þá spilar Björgvin Páll Gústavsson með Haukum. Aðrir leikmenn í dag voru:
Arnar Freyr Arnarsson
Arnór Þór Gunnarsson
Bjarki Már Elísson
Elliði Snær Viðarsson
Elvar Örn Jónsson
Janus Daði Smárason
Kristján Örn Kristjánsson
Oddur Grétarsson
Ómar Ingi Magnússon
Sigvaldi Björn Guðjónsson
Viggó Kristjánsson
Ýmir Örn Gíslason
Forsíðumynd af Haukahúsi/OBÞ. Mynd af Þorgeiri/ÓMS