Grein um hafnfirska myndlistarmanninn Kristberg Ó. Pétursson og verk hans var birt í tímaritinu Aquarellen, prentmiðli sem er gefinn út af Nordiska Akvarellesallskapet (e. Nordic Watercolour Society). Í tímaritinu er fjallað um norræna og alþjóðlega vatnslitamyndlist. Þá gefur tímaritið einnig upplýsingar um vatnslitaefni og tækni, námskeið, ferðir og fleira.

„Ég býst við að greinarhöfundurinn Jón B.K. Ransu hafi séð eitthvað af þessum sýningum og það vakið áhuga hans. Hann hefur einnig fengið mig til að vera með vatnslitakúrs fyrir nemendur í listmálun í Myndlistarskólanum í Reykjavík,“ segir Kristbergur í samtali við Hafnfirðing. Um sé að fimm blaðsíður í lit og er umræddur Jón myndlistarmaður og deildarstjóri listmálunardeildar Myndlistaskóla Reykjavíkur. Hann hefur gefið út fræðirit um myndlist og skrifað gagnrýni.

Vatnslitamyndir hafa verið fastur liður á sýningum hjá hafnfirska myndlistarmanninum Kristbergi Ó. Péturssyni síðan árið 2013, til dæmis á stóru sýningunni í Hafnarborg 2016, í SÍM-húsinu (Samband íslenskra myndlistarmanna) 2017 og í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 2018 þar sem hann sýndi 16 stórar vatnslitamyndir.
Spurður segist Kristbergur fyrst og fremst vera þakklátur fyrir þann heiður og virðingu sem honum er sýndur af hálfu Jóns og ritstjórnar tímaritsins, hver sem svo viðbrögðin verða og hvað framtíðin ber í skauti sér.

Nordic Watercolor Society er opið öllum, bæði starfandi listamönnum og öllum öðrum sem áhuga hafa. Í Akvarellen er upplýst um ýmis tækifæri fyrir listamenn til að taka þátt í námskeiðunum, málstofum og vinnuferðum, sem Nordic Watercolor Society skipuleggur. Í samtökunum eru um 1800 félagar á Norðurlöndunum.

Kristbergur er með vefsíðuna https://kristbergur.is/ þar sem hægt er að skoða úrval vatnslitaverka eftir hann, auk fjölda verka í öðrum miðlum.

Síðurnar voru birtar með góðfúslegu leyfi greinarhöfundar.
Forsíðumynd og Kristbergi tók Olga Björt Þórðardóttir.