Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður 9. október 1946 og er einn af stærri rótarýklúbbum landsins. Hann hefur einnig styrkt ýmis verkefni í heimabyggð og erlendis, s.s. skilti, útsýnisskífur, skógrækt, dvöl skiptinema og byggingu barnaheimilis í S-Afríku. Í klúbbnum eru fulltrúar starfsgreina og eru konur sérstaklega velkomar. Fyrsta konan var tekin inn í klúbbinn árið 1998. Starfsemi Rótarýs einkennist af vikulegum fundum yfir árið og lagðar eru áherslur á ýmsar fastar venjur og hefðir, með það að aðalmarkmiði að sýna samstöðu og láta gott af sér leiða. Í þessari umfjöllun verður rætt við nokkra félaga, og einn skiptinema, um þeirra sýn á starf klúbbsins.  

Víðir Stefánsson og eiginkona hans, Elín Ragna Sigurðardóttir, ásamt skælbrosandi barnabarninu Andreu Elínu.

Nokkurs konar akademísk eftirmenntun

Víðir Stefánsson er forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar og hefur verið klúbbfélagi síðan 1997. Eiginkona hans, Elín Ragna Sigurðardóttir, gerðist félagi í aukaklúbbi félagsins, Inner Wheel, árið 2000. Sá klúbbur var stofnaður sérstaklega fyrir eiginkonur á sínum tíma en í dag verða konur félagar í Rótarýklúbbnum sjálfum. Við hittum þau á fallegu heimili þeirra við Fálkahraun. 

Hjónin Víðir og Elín eru sammála um að félagsskapurinn sé það besta við starf Rótarýklúbbsins og að láta gott af sér leiða, því það sé kjarninn í starfinu. Fyrirlesarar og fyrirlestrar séu einnig afar góðir. „Fundirnir eru þannig upp byggðir að þetta er nokkurs konar akademísk eftirmenntun. Við fáum marga fjölbreytta fyrirlesara og það skapast annað og verulega gott andrúmsloft að fá utan að komandi fólk til okkar. Þá heyrum við ný sjónarmið og það eykur víðsýni okkar. Stjórnmálamenn tala t.d. öðruvísi til okkar en í fjölmiðlum eða á framboðsfundum. Manneskjan kemur í ljós,“ segir Viðir og brosir. Svo sé róterað sætum á fundum og fólk kynnist því vel innbyrðis og lærir ýmislegt um störf hvers annars í bænum. „Það felst mikil vinna í að vera forseti og í stjórn, samhliða öðru. Mikið um hefðir, utanumhald og undibúning þess sem fram fer. En þetta skilar sér allt til baka.“ 

Rótarýhreyfingin á Íslandi hefur frá árinu 1980 tekið virkan þátt í starfi skiptinema innan alþjóðahreyfingarinnar. Fyrsti skiptineminn dvaldi Í Bandaríkjunum á vegum Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar 1982-1983. Síðan þá hefur áhersla verið lögð á að fá skiptinema annað hvert ár. Skiptinemi frá Brasilíu, Matheus, dvelur um þessar mundir hjá Víði og Elínu og Elín segir það bæði vera mikla vinnu en jafnframt mjög gefandi og skemmtilegt. „Matheus er skemmtilegur og duglegur strákur sem við eigum örugglega eftir að fylgjast áfram með í framtíðinni eftir að hann fer heim aftur.“

Mateus Maia býr hjá Víði og Elínu Rögnu.

Valdi Ísland vegna menningarinnar

Skiptineminn Mateus Maia býr hjá Víði Stefánssyni formanni og konu hans Elínu Rögnu. Hann er alveg heillaður af Hafnarfirði, en hann bjó fyrri hluta dvalar sinnar hjá fjölskyldu í Reykjavík og segir það hafa verið áhugavert að kynnast ólíkum fjölskyldum. 

„Það er ótrúlega góð þjónusta í ekki stærri bæ en Hafnarfjörður er. Hér eru verslanir og veitingastaður um allt. Ég bý í 28.000 manna bæ í Brasilíu og þar þarf að keyra langa leið til að fara í verslun,“ segir Mateus og brosir breitt. Honum finnst veðrið líka gott og það sé fínt að kynnast kulda í svona langan tíma í senn því í Brasilíu sé bara kalt tvær vikur á ári. Hann er nemandi í Flensborg og er alsæll með skólann. „Hér er allt sem þarf til kennslu, það er nýtt fyrir mér. Ég er búinn að eignast marga vini hér og mig langar að taka þátt í söngleiknum Mamma mia sem leikfélagið er að setja upp.“

Mateus segir að fjölskyldurnar sem hann hafi dvalið hjá séu skemmtilega ólíkar og það sé af hinu góða. „Áður en ákveðið var að ég færi hingað fékk ég að velja til hvaða lands ég færi og ég valdi Ísland vegna menningarinnar sem er hér og mjög ólík minni. Hér er t.d. mikið borðað af fiski, en í Brasilíu er mest borðað af kjöti, baunum og grjónum. Ég smakkaði meira að segja hákarl og hval í íslensku matarboði,“ segir hann og bætir við að það sé líka magnað að búa svona nálægt sjó. „Ég bý 1000 km frá sjó í heimalandinu og það er ótrúlegt að geta séð hvali hérna. Heima sjáum við frekar t.d. Jagúar.“

Hjalti Jóhansson.

Fulltrúi þeirra reynslumestu

Hjalti Jóhannsson er einn þeirra félaga í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar sem hefur verið lengst, eða síðan 1982. Hann segist vera kominn á 85 ára regluna, sem er samanlagður lífaldur og ár sem félagi, og hefur ekki lengur mætingaskyldu að gegna. Hann sé þó langt í frá hættur. 

Hjalti segir ótal margt standa upp úr í starfsemi Rótarýs þessi 38 ár, en það sé þó fyrst og fremst félagsskapurinn. „Það að geta hitt félaga og vini einu sinni í viku, megnið af árinu, er afar góð tilfinning. Ég hef alltaf vanið mig á að mæta snemma á fundi til að ná góðu spjalli áður en þeir hefjast. Seinni árin hef ég aðeins slegið af mætingunni, en er alls ekki hættur,“ segir hann og glottir. Eins og gefur að skilja hefur Hjalti sinnt ansi mörgu í klúbbnum á svona löngu tímabili, s.s. sinnt öllum störfum í stjórn og var t.a.m. forseti 1994-1995 og í nefndum fyrir tvö stór umdæmisþing, auk annarra venjubundinna nefndastarfa. Hjalti segir að áherslur í starfinu séu mismunandi eftir persónum þeirra sem stjórna hverju sinni en tilgangur heildarinnar sé ætíð góðvild og drengskapur. „Ég er þakklátur fyrir starfið og að hafa haft heilsu, nennu og getu til að vera með öll þessi ár.“

Hjördís Guðbjörnsdóttir.

Fyrsta konan í klúbbnum

Hjördís Guðbjörnsdóttir er fyrsta konan sem var tekin inn í Rótarýklúbb Hafnarfjarðar, árið 1998. Hún segir standa upp úr í starfi klúbbsins hversu mikla innsýn hún hefur fengið í önnur störf, en hún var lengi vel skólastjóri Engidalsskóla. 

„Mér var boðið í klúbbinn af gömlum skólabræðrum mínum og félögum. Þá voru bara herramenn en ég var vön slíku umhverfi í hópi skólastjórnenda á Reykjanesi, sem ávörpuðu samkomur með orðunum „jæja, strákar!“, segir Hjördís og brosir við að rifja upp þessa tíma. Aðspurð segir Hjördís að þótt einhverjir hættu í klúbbnum í mótmælaskyni þegar hún var tekin inn, hafi félagar hennar ætíð komið vel fram við hana. „Þetta hafði verið karlaklúbbur frá árinu 1946 og því stórt skref fyrir þá að breyta út af vananum. Það gerðist í framhaldi af því að í alþjóðalögum vað kveðið á um að taka ætti inn konur. Ég var meðal þessara ungu þegar ég byrjaði fyrir 22 árum en er meðal þeirra elstu núna.“

Hjördis kynntist eiginmanni sinum, Kristjáni Stefánssyni, í þessum félagsskap og meðal þess sem heillaði hana í starfinu var að hitta fólk úr öðrum starfsstéttum. „Þetta hefur gefið mér víðsýni og sýn í starfsgreinar sem ég vissi varla að væru til. Maður er oft í voða þröngum hópi í sinni starfsstétt. Á sínum tíma mátti bara vera einn í hverri starfsgrein. Núna mega vera 4 eða 5. Við förum líka oft til útlanda að sækja fundi og það er mjög skemmtileg reynsla. Svo er barnabarn mitt er skiptinemi í Colorado, á vegum Rótarýs, alveg alsæl.“ 

Kolbrún Benediktsdóttir.

Viðurkenningar fyrir mannkosti

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari er fulltúi nýrra kvenna í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar, fædd 1978, en hún kom inn 2017, eftir að hafa haldið starfsgreinaerindi á fundi klúbbsins.  

Kolbrún segist lítið hafa þekkt til Rótarýhreyfingarinnar áður en hún hélt erindið, þótt hún hefði heyrt hennar getið. „Það kom mér mest á óvart hversu mikla fræðslu ég er búin að fá um hluti sem ég hefði annars aldrei fengið vitneskju um á annan hátt. Mér fannst líka magnað að þetta væru góðgerðarsamtök að leggja góðum málefnum lið. Umfangið er því mikið og merkilegt; m.a. reka barnaheimili í Afríku og að fólki fari þangað til að kynna sér menningu annarra ríkja.“

Kolbrúnu finnst mjög jákvætt að verið sé að brjóta aðeins upp hefðir og bjóða ungum konum í hópinn. „Mér finnst líka gaman að hér sé fólk á öllum aldri; fólk með mikla reynslu og fróðleik.  Þetta er sterk liðsheild þar sem fólk stendur þétt hvert við annað ef eitthvað kemur upp á.“ Einnig finnst Kolbrúnu falleg hugsun að klúbburinn sé farinn að verðlauna útskriftarnema fyrir að   vera góðar manneskjur og hafa sýnt forystu, sinnt félagsmálum og sjálfboðaliðastarfi. „Það er vel hægt að skara fram út á þann hátt og sýna fram á þetta skiptir ekki síður máli en námsárangur.“

Jóhann Lúðvík Haraldsson.

„Okkur verður að lynda við hvert annað“

Jóhann Lúðvík Haraldsson er fæddur 1967 og hefur verið félagi síðan 2014. Hann segir starfið mjög uppbyggilegt og eflandi og að mynduð séu mikilvæg tengsl við félaga í ýmsum starfsstéttum. 

„Ég hef ekki áður tekið þátt í skipulögðu félagsstarfi og hef því lært mikið af því að koma fram og tjá mig í hér, auk þess sem maður fær fleiri áskoranir og ég finn hvað það eflir mig,” segir Jóhann. Árlega séu félagar settir í alls kyns nefndir og læri margt sem þeir hafi jafnvel ekki haft reynslu af áður. Jóhann er sjálfur formaður skemmtinefndar núna og segir það gefandi og skemmtilegt og auðvelt sé að leita til félaga með meiri reynslu sé þess þörf. Það eigi reyndar líka við í lífi og starfi, félagarnir séu reiðubúnir að aðstoða og eigi ráð undir rifi hverju, í anda Rótarý, ofar persónulegum þörfum með víðsýni, vináttu og drenglyndi í fyrsta sæti. „Okkur verður að lynda við hvert annað.“

Fjórprófið eru gildin sem félagar í Rótarýs eiga að lifa og starfa eftir og þessi orð eru ávallt þulin upp í lok vikulegra funda hjá félögum.

Göfugt starf rótarýklúbbsins

Hægt er að kynna sér starfsemi Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar á heimasíðu klúbbsins sem hlekkur er tengdur ef smellt er á þessa setningu. Langstærsta samfélags- og samstarfsverkefni Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar og einnig stærsta verkefni sem einstakur, íslenskur rótarlúbbur hefur tekist á við í samvinnu við Alþjóðahreyfingu Rótarý og Rótarýsjóðinn, er barnaheimilið í Kimberley í Suður-Afríku.

Eftir fimm ára þrautagöngu frá hugmynd Gunnhildar Sigurðardóttur, Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar og Björns Dagbjartssonar, félaga í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Austurbær, m.a. með ferðum félaga til Kimberley til að kynna sér aðstæður, var barnaheimilið vígt árið 2008 og það hýsir að jafnaði 170-180 börn.

Meðfylgjandi myndir tók Gunnhildur Sigurðardóttir.

„Grísinn góði“ hefur verið hluti af fjölmörgum leiðum til frjálsra framlaga sem Rótarýsjóðurinn hefur nýtt til góðra málefna, s.s vatnsöflunarverkefna á Indlandi. Mynd/Sigurjón Pétursson
Hamarskotshamar, þar sem rótarýfélagar hafa gróðursett fjölmörg grenitré árið 1958. Mynd frá 2017/Kristján Stefánsson
Við afhjúpun merkis skógræktarsvæðis Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar í Sléttuhlíð. Mynd/ Kristján Stefánsson.

Áhugasamir verðandi félagar eru hvattir til að hafa samband í netfangið hafnarfjordur@rotary.is

Þessi umfjöllun er samstarf.