Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á dögunum samkomulag um byggingu knattspyrnuhúss á Ásvöllum. Stjórn knattspyrnudeildar Hauka fagnar þessum áfanga innilega fyrir hönd okkar iðkenda eftir erfiðan vetur og fagnar einnig þeirri framsýni sem bæjarfulltrúar sýna með þessari ákvörðun.
Knattspyrnufélagið Haukar hefur eitt gervigras til umráða fyrir æfingar og því verður knatthús sannkölluð bylting fyrir starfsemi knattspyrnudeildar Hauka.
Það vantar líka upphitað knatthús í fullri stærð í Hafnarfjörð sem mun ekki eingöngu nýtast til æfinga og keppnisleikja í Íslandsmóti heldur einnig til annarra fjölmennra viðburða.
Það er magnað að taka þátt í starfi knattspyrnudeildar Hauka með annars vegar öflugum, vel menntuðum og reynslumiklum þjálfurum og hins vegar kröftugum og skemmtilegum sjálfboðaliðum sem brenna fyrir því að fótboltinn í Haukum vaxi og dafni ásamt því að stuðla að forvörnum á meðal barna og unglinga.
Innan knattspyrnudeildar Hauka hefur verið unnið mjög gott starf í yngri flokkum þar sem við eigum marga fulltrúa sem taka þátt í úrtaksæfingum yngri landsliða KSÍ eða eru valdir í lokahópa fyrir ákveðna leiki.
Við stefnum að sjálfsögðu enn hærra en teljum ávallt mikilvægt að halda í gildi Hauka fjölskyldunnar þar sem okkar markmið er að veita fyrsta flokks þjálfun ásamt því leiðarljósi að íþróttaiðkun skuli vera þroskandi bæði líkamlega, sálrænt og félagslega.
Haukar munu svo sannarlega ná hærra með tilkomu knatthúss þar sem knattspyrnudeildin mun geta boðið upp á enn betri þjónustu við sína iðkendur og betri þjálfun og þá mun iðkendum fjölga sem mun efla okkar rekstrarumhverfi enn frekar.
Að knatthús á Ásvöllum rísi fyrr en síðar er gríðarlega mikilvægt og skiptir tímaramminn afar miklu máli. Knattspyrnufélagið Haukar er eitt af stærstu íþróttafélögum landsins og er staðsett í nýjasta og mest vaxandi hverfi bæjarins.
Eins og ég fagna samkomulaginu vil ég fyrir hönd iðkenda, þjálfara og foreldra í knattspyrnudeild Hauka hvetja alla bæjarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar að styðja vel við fyrirhugaða framkvæmd og stefna á að knatthús verði risið á Ásvöllum sem allra fyrst. Það mun án efa ýta undir lóðasölu í Skarðshlíð og Hamranesi enda vilja ungir og verðandi foreldrar flytja í hverfi þar sem boðið er upp á fyrirmyndar aðstöðu til íþróttaiðkunar, hvort sem að barnið velur fótbolta, handbolta, körfubolta, karate eða sund.
Halldór Jón Garðarsson
Formaður knattspyrnudeildar Hauka