Árið 2020 verður sannarlega eftirminnilegt og hefur tónlistar- og viðburðabransinn ekki farið varhluta af áhrifum heimsfaraldursins. Pétur Stephensen og Páll Eyjólfsson hafa rekið menningarhúsið Bæjarbíó í fjögur ár og síðan í mars hafa einungis 11 viðburðir verið haldnir þar, sem annars hefðu verið um 170. Eins og gefur að skilja hefur það keðjuverkandi áhrif á mannlífið í bænum. Þeir félagar líta þó björtum augum til bólusetningar snemma á næsta ári og hafa fulla trú á að í kjölfarið muni fólk aftur fjölmenna á viðburði og njóta þeirra þjónustu sem Hafnarfjarðarbær hefur upp á að bjóða. 

Algengasta sjón í Bæjarbíói, troðfullur salur. Mynd/aðsend

„Það sem skiptir máli er að eðlilegt líf farið að komast aftur í gang. Þetta lamar ekki bara okkur, heldur svo marga aðra þjónustu líka. Afleiddu áhrifin af rekstri Bæjarbíós eru svo mikil að fólk áttar sig oft ekkert á því. Hér fara 13.000 – 15.000 manns árlega út að borða í bænum fyrir tónleika. Og þetta eru bara tölur sem við vitum um vegna samstarfs við nokkra af mörgum. Þeir eru mun fleiri og hefur fjölgað á árinu. Þetta er fyrir utan ruðningsáhrifin á þjónustu sem við höfum ekki verið að mónitora; að vera með 50.000 manns sem koma í miðbæinn á ári verður seint metið til fjár,“ segir Páll og leggur einnig áherslu á að ofan á allt saman sé mjög mikilvægt fyrir samfélag eins í Hafnarfirði að eiga menningarhús sem virkar. „Það er auðæfi. Það eru heldur ekki öll sveitarfélög sem hafa sama skilning eins og yfirvöld hafa hér gagnvart þessu húsi. Það er eiginlega einstakt á landsmælikvarða. Hér ríkir fullur skilningur.“ 

Frá tónleikum Jónasar Sig. Þarna er fólk farið að dansa með. Mynd/aðsend
Viðburðir á vegum Bæjarbíós laða fólk víða að. Mynd/aðsend

Undantekningalaust sammála

Pétur tekur undir þetta og segir að samstarfið við bæjaryfirvöld sé búið sé að vera einstakt. „Við höfum ekki yfir neinu að kvarta og erum fullir bjartsýni með næsta ár. Það verður að líta á þetta ár sem ákveðið verkefni. Það er tekjumissir og allt það og reksturinn hjá mörgum í járnum. En ég vil líta á það þannig að t.d. Þorláksmessutónleikar Bubba sem verða hér í beinni útsendingu, sem Björgvin Halldórsson var alltaf með en verður í Borgarleikhúsinu 19. des, marki upphafið að því að við förum að bjóða meira upp á streymi samhliða fullum sal.“ Hafnfirðingar og nærsveitafólk sé eru orðið tónleikaþyrst og margt hafi lærst á árinu sem bjóði upp á stórkostlega möguleika þegar það birtir til á ný. „Það er svo mikil nánd í salnum og tónlistarfólki finnst gott að spila hér. Það er góður hljómur og við höfum allt til alls fyrir þetta góða fólk sem vilja spila hér eða aðra viðburði. Með tilkomu þess að fólk er farið að streyma heim í stofu sjáum við mikil tækifæri í að Bæjarbíó verði samkeppnishæft á þeim vettvangi eins og öðrum. Nú þegar höfum við hafið samtal við Færeyjar og Grænland um samstarf tónlistarfólks, sem mun heimsækja okkur í Bæjarbíó og á móti íslenskt tónlistarfólk muni eldurgjalda heimsóknina til þeirra. Starfsemi Bæjarbíós fer aftur í gang á fyrstu mánuðum næsta árs, jafnvel í febrúar,“ segir Pétur og Páll tekur undir það og segir: „Það er gæfa okkar að við erum undantekningarlaust sammála um hvernig við sjáum Bæjarbíó blómstra.“

Forsíðumynd/Eva Ágústa Aradóttir