Karatekonan Hjördís Helga Ægisdóttir hefur á tiltölulega skömmum tíma skotist fram á sjónarsviðið en Hjördís stundar íþrótt sína hjá Haukum. Þessi efnilega karatekona er komin í landsliðið og framtíðin er björt.
„Ég byrjaði að stunda karate átta ára gömul. Pabbi æfði karate með KFR og var alltaf að tala um hvað þetta væri gaman. Ég ákvað að prófa og hef ekki litið til baka síðan. Mig vantaði að æfa einhverja íþrótt og þetta var alveg kjörið. Karate hentar krökkum sem eiga í smá vandræðum með skapið en það er mikill agi og sjálfsstjórn á karate-æfingum. Ég var samt bara fjörugur krakki sem þurfti að losa smá orku, ekki einhver óþekktarormur,“ segir Hjördís brosandi.
„Ég er uppalin í Hafnarfirði og hef alla tíð æft hjá Haukum. Ég prófaði aðrar íþróttir og var t.d. í siglingum en að lokum ákvað ég að einbeita mér að karate. Þó að ég hafi æft karate í nokkur ár, þá var það bara í fyrra sem ég byrjaði að ná einhverjum alvöru árangri. Tímabilin fyrir árið 2017 skiluðu mér aldrei á verðlaunapall og ég datt alltaf úr leik í fyrstu viðureign. Það fór svolítið í skapið á mér vegna þess að mig langaði svo mikið að ganga vel. Ég hætti samt aldrei, mætti á allar aukaæfingar sem í boði voru og smátt og smátt fóru hlutirnir að ganga betur. Ég komst í úrvalshóp landsliðsins og er núna að fara á mót erlendis að keppa.“
Hjördís keppti í Kata í upphafi ferilsins en hefur í auknum mæli hrifist af Kumite, þar sem hún þarf að mæta andstæðingum í bardaga.
„ Ég hélt alltaf að ég væri Kata-keppandi og var ekkert að æfa kumite. Svo kviknaði áhuginn á kumite og ég keppti í fyrsta sinn á Reykjarvíkurleikunum 2018. Þá ákvað ég að halda áfram í kumite og mér finnst sú grein henta mér betur. Ég var samt alltaf pínu hrædd við þann hluta íþróttarinnar. Ég var smeyk að fá á mig högg en þegar ég byrjaði svo í þessu komst ég fljótt að því að íþróttin er alls ekki eins harkaleg og maður heldur. Það er passað mjög vel upp á öll öryggisatriði en allir keppendur eru með hlífar, góm og brynju. Þetta er alls ekkert hættulegt og um leið og ég fattaði það, þá fór mér að ganga vel. Núna er ég að ná silfrinu á mörgum mótum en tapa alltaf fyrir margföldum Íslandsmeistara, Ivötu Ivanovu,“ segir Hjördís brosandi.
Karatedeild Hauka er ekki fjölmenn í fullorðninsflokki og Hjördís vill fá fleiri á karateæfingar.

Mynd: Olga Björt
„Það verður að viðurkennast að það vantar fleiri iðkendur í karate. Þetta er mjög skemmtilegt umhverfi til að æfa og mjög vinalegur andi yfir öllu hjá karatedeildinni. Við vorum alltaf þrjú sem vorum að fara á mót fyrir hönd Hauka en báðir strákarnir sem æfðu með mér eru hættir núna og ég stend ein eftir. Yngri hóparnir eru samt mjög virkir og okkar draumur er að deildin stækki og verði meira áberandi. Við erum í augnablikinu 4-6 að æfa í fullorðinsflokki en viljum auðvitað verða fleiri og að karate verði stór hluti af því starfi sem unnið er innan Hauka.“
Keppnisreynsla er mikilvæg í karate og Hjördís ætlar að sækja hana í auknu mæli með því að keppa á mótum erlendis.
„Ég hef einu sinni áður farið út að keppa en ég var á meðal keppenda á Smáþjóðaleikum 2017 í San Marino. Þá fékk ég silfur í hópkata og brons í kumite. Ég hef lítið verið að fara á alþjóðleg mót, þannig að ég renni svolítið blint í sjóinn. Það er mjög mikilvægt að öðlast reynsluna og bara allt annað að keppa í öðru landi á ókunnugum slóðum. Keppendur eru sterkari en hérna heima og það getur verið smá sjokk að lenda í erfiðum andstæðingi frá öðru landi.“
En hver skyldi vera algengasti misskilningurinn gagnvart karate?
„Það er lífsseigur miskilningur að karatefólk sé tilbúið að lumbra á öllum sem angra það. Þegar þú æfir karate ertu alls ekki að verða einhver götu-slagsmálahundur en þú lærir hins vegar að beita líkamanum rétt í spörkum og höggum. Ansi margir halda að það sé bara nóg að sparka út í loftið en á bak við vel heppnað karatespark er mikil tækni og mikil æfing. Þetta er ekki íþrótt sem þú ferð að æfa ef þú ert bara einhver vitleysingur sem langar að slást úti á götu,“ segir Hjördís ákveðin.
„Það eru strangar reglur hjá okkur varðandi notkun á karate utan æfinga og keppni. Það er tekið hart á því ef fólk brýtur þær reglur. Ég er ekkert að auglýsa að ég sé með svarta beltið í karate þó einhver sé að pirra mig,“ segir karatekonan Hjördís Helga Ægisdóttir.