Fyrir mörgum Hafnfirðingum; staðbundnum, aðfluttum og brottfluttum, byrjar aðventan ekki fyrr en búið er að setja jólamyndirnar í gluggana í gamla Lækjarskóla, eða Menntasetrinu við Lækinn. Hafnfirðingur kíkti við og spjallaði við fólkið á bakvið tjöldin sem sinnir þessu mikilvæga árlega hlutverki.
Myndirnar eru gerðar úr kreppappír og pappa og fyrstu gerðu nemendur skólans skólaárið 1959-1960. Nokkrar kynslóðir hafa búið til myndir síðan sem hafa varðveist misjafnlega vel. Lengi vel sáu Theódór Hallsson og Sverrir Marinósson um að setja myndirnar upp og Theódór lét plasta þær fyrir nokkrum árum. Þannig varðveitast þær betur.
Á forsíðumyndinni eru frá vnstri Karl Guðmundsson, Sigurður Ben Guðmundsson, Þórður Emil Valdimarsson, Kristófer Logi Júlíusson, Helga Þórdís Jónsdóttir, Svanhvít Una Yngvadóttir og Dagbjört Helga Daníelsdóttir.


Fyrst um sinn voru myndirnar minni en nú og voru þá 8 í hverjum glugga, þar til þær urðu stærri og þá fjórar í hverjum. Það var mikið verk að festa hverja og eina upp með teiknibólum og við það voru „áverkar“ á myndunum og gluggakörmunum. Sigurður Ben Guðmundsson stakk því upp á því við bæjarminjavörð fyrir tveimur árum að láta smíða ramma utan um fjórar og fjórar myndir saman og var það samþykkt. Borað var upp í karmana fyrir tveimur krókum í hvern glugga og því er miklu hægari leikur að hengja myndirnar upp núna. Og einnig að taka þær niður þegar lofta þarf út, t.d. í prófatíð. Fjölgreinadeildin hefur séð um að hengja upp myndirnar á jarðhæðinni og er þetta hluti af árlegri aðventustemningu hjá þeim.












Myndir/Olga Björt